Fótbolti

Enska úrvalsdeildin er helsti keppinautur Barcelona

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Bartomeu ásamt Luis Suarez.
Bartomeu ásamt Luis Suarez. vísir/getty
Forseti Barcelona, Josep Maria Bartomeu, hefur meiri áhyggjur af ensku úrvalsdeildinni en Real Madrid.

Liðin í ensku úrvalsdeildinni munu skipta með sér ótrúlegum peningum á næstu leiktíð vegna sjónvarpsréttarsamnings. Það mun setja ensk lið á annan stall en önnur lið.

„Fjárhagsstaða ensku liðanna verður ótrúleg og við höfum áhyggjur af því,“ sagði Bartomeu í aðdraganda leiks síns liðs gegn Arsenal í Meistaradeildinni.

Fyrri leikur liðanna í 16-liða úrslitum keppninnar fer fram á Emirates-vellinum í kvöld.

Bæði Barcelona og Real Madrid gerðu sérstaka sjónvarpssamninga á sínum tíma en ný lög á Spáni hafa komið í veg fyrir það. Liðin í deildinni á Spáni munu skipta með sér sjónvarpstekjunum og stóru liðin tvö fá ekki eins mikið og áður.

„Enska deildin er besta deildin. Þar eru mestar tekjur og mestur áhugi áhorfenda. Deildin er að standa sig vel en það er annað landslag í peningamálunum á Spáni og það væri erfitt fyrir lið eins og Leicester að vera á toppnum í okkar landi,“ sagði forsetinn.

„Okkar helsti keppinautur er enska úrvalsdeildin. Við þurfum að gera okkar besta til þess að auka tekjurnar svo við getum haldið okkar bestu mönnum í framtíðinni. Þess vegna er ég áhyggjufullur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×