Erlent

Páfinn bað Írani um að berjast gegn hryðjuverkum

Samúel Karl Ólason skrifar
Hassan Rouhani og Francis páfi.
Hassan Rouhani og Francis páfi. Vísir/EPA
Francis páfi fundaði í dag með Hassan Rouhani, forseta Íran, í upphafi Evrópuferðar forsetans. Páfinn fór fram á að Íranar gerðu meira til að berjast ásamt nágrönnum sínum gegn hryðjuverkum. Þar að auki hvatti páfinn til þess að Íran myndi hjálpa við baráttuna gegn ­ólöglegri vopnasölu.

Í tilkynningu frá Vatíkaninu var fundi Rouhani og páfans lýst sem „hlýjum“ þar sem þeir ræddu um góð tengsl á milli Íran og Vatíkansins. Þetta var fyrsti fundur leiðtoga Írans við páfa frá 1999.

Íranar samþykktu nýlega að draga úr kjarnorkuáætlunum sínum í skiptum fyrir afnám viðskiptaþvingana. Rouhani er nú á ferð um Evrópu ásamt fjölmennu föruneyti og er markmiðið að byggja tengsl við þjóðir Evrópu og opna á viðskiptatækifæri fyrir Íran. Ferðin mun taka fjóra daga.

Samkvæmt AP fréttaveitunni stærði Rouhani sig af því við viðskiptaleiðtoga Rómar að Íran væri –öruggasta og stöðugasta ríki Mið-Austurlanda. Rouhani hefur lýst ferð sinni um Evrópu sem nokkurs konar teikningu að mögulegum friðarviðræðum í Mið-Austurlöndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×