Fótbolti

Viðar Örn stóðst læknisskoðun hjá Malmö

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Viðar Örn í landsleik á móti Belgíu.
Viðar Örn í landsleik á móti Belgíu. vísir/afp
Viðar Örn Kjartansson, landsliðsframherji í fótbolta, stóðst læknisskoðun hjá sænska stórliðinu Malmö FF í morgun og verður kynntur sem nýr leikmaður félagsins síðar í dag, samkvæmt heimildum Vísis.

Sænska blaðið Expressen greindi frá því á föstudaginn að Malmö lagði inn kauptilboð í Viðar sem kemur til Svíþjóðar frá kínverska liðinu Jiangsu Sainty. Hann skoraði níu mörk í 22 leikjum fyrir Sainty og varð bikarmeistari. Expressen sagði svo frá læknisskoðun Viðars í morgun.

Hjá Malmö hittir Viðar Örn annan íslenska landsliðsmann, miðvörðinn Kára Árnason, sem kom til Malmö frá Rotherham á Englandi síðasta sumar. Malmö er eitt stærsta félagið á Norðurlöndum í dag og tók þátt í riðlakeppni Meistaradeildarinnar undanfarin tvö ár.

Viðar Örn, sem er uppalinn á Selfossi, á að baki átta leiki með íslenska A-landsliðinu. Hann skoraði sitt fyrsta landsliðsmark á dögunum í 2-1 tapi gegn Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Malmö er að styrkja sig mikið fyrir næstu leiktíð, en í gær gekk það frá kaupum á danska landsliðsmanninum Anders Christiansen frá Chievo á Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×