Innlent

Stjórnmálamaður ársins ætlar aftur fram í næstu kosningum

Una Sighvatsdóttir skrifar
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, var útnefndur stjórnmálamaður ársins 2015 á Sprengisandi af hlustendum Bylgjunnar og lesendum Vísis.  Kosningin var mjög jöfn milli efstu þriggja sætanna, því Helgi Hrafn hlaut rúm 22 prósent atkvæða en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem var í öðru sæti hlaut 21,4 prósent atkvæða og Bjarni Benediktsson í þriðja sæti hlaut 20,6 prósent.

Katrín Jakobsdóttir var í fjórða sæti með rúm tíu prósent atkvæða og Ólöf Nordal í því fimmta með rúm sjö prósent. Helgi Hrafn er oddviti Pírata í Reykjavíkurkjördæmi norður og jafnframt svonefndur kapteinn flokksins. Píratar voru stærsti flokkur síðasta árs, með þrjátíu prósent meðalfylgi yfir árið samanborið við rúmlega tíu prósent meðalfylgi Framsóknarflokksins sem leiðir ríkisstjórnina.

Haldi Píratar þessu fylgi þýðir það að þeir fengju nítján þingsæti í næstu kosningum, sem yrði margföldun á völdum flokksins því á þessu kjörtímabili sitja aðeins þrír Píratar á fylgi. Helgi Hrafn sagði á Sprengisandi fyrr í dag að hann eigi von á því að fylgið muni minnka, en flokkurinn sé þó tilbúinn að mynda ríkisstjórn komi til þess. Skilyrði þeirra séu þó skýr.

„Við höfum samþykkt stefnu í okkar röðum hvað varðar myndun stjórnar á næsta kjörtímabili,“ segir Helgi Hrafn. „Aðaláhersla á næsta kjörtímabili ef við fengjum stjórnmyndunarumboð væri að koma á nýju stjórnarskránni, semsagt frumvarpi stjórnlagaráðs, og halda þjóðaratkvæðagreiðslur um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið. Þetta er það sem við leggjum upp með.“

Í viðtalinu við Helga, sem heyra má hér fyrir ofan, kom einnig fram að hann mun að óbreyttu bjóða sig fram aftur í næstu Alþingiskosningum.


Tengdar fréttir

Þingflokkur Pírata myndi áttfaldast

Helsti möguleikinn á myndun tveggja flokka stjórnar, ef kosið væri til Alþingis í dag, væri stjórn Pírata og Sjálfstæðisflokks. Pírati vill að stjórnmálaflokkar myndi skýrari línur fyrir kosningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×