Erlent

Hótar „guðlegri“ hefnd

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Ayatollah Ali Khamenei.
Ayatollah Ali Khamenei. vísir/getty
Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Íran, hefur hótað stjórnvöldum í Sádí-Arabíu „guðlegri hefnd“ vegna aftöku sjítaklerksins Nimr al-Nimrs í gærmorgun. Hann segir ómögulegt að fyrirgefa slíkan glæp.

Alls voru 47 teknir af lífi á nokkrum stöðum í landinu. Flestir voru hálshöggnir. Mikil mótmæli hafa geisað í Miðausturlöndum í dag og hafa stjórnmála- og trúarleiðtogar gagnrýnt aftökuna harðlega. Yfirvöld í Sádí-Arabíu hafa meðal annars verið sökuð um að hafa vísvitandi ráðist á samfélag sjíta um heiminn allan.

Þá hafa stjórnvöld í Frakklandi fordæmt aftökurnar og skora á ráðamenn að reyna að koma í veg fyrir deilur á milli síta og súnníta í landinu. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur einnig fordæmt aftökurnar. Hann sagðist í yfirlýsingu sinni leiður og harma atburðinn.

Í nótt komu nokkur hundruð mótmælendur saman fyrir utan sendiráðsbústað Sádí-Arabíu í Teheran. Eldur var lagður að byggingunni og til átaka kom á milli mótmælenda og lögreglu. Yfirvöld í Íran hafa nú breytt nafni götunnar sem sendiráðið er við og er hún nú nefnd eftir al-Nimr.

Nimr al-Nimr barðist fyrir lýðræðisumbótum í austurhluta Sádí-Arabíu árið 2011 en var tekinn af lífi fyrir að hafa skipulagt mótmæli og árásir á öryggissveitur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×