Erlent

Borða gras og lauf til að halda sér á lífi: Neyðaraðstoð hleypt í gegn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þess hefur verið krafist að neyðaraðstoð verði hleypt í gegn til bæjarins Madaya í Sýrlandi.
Þess hefur verið krafist að neyðaraðstoð verði hleypt í gegn til bæjarins Madaya í Sýrlandi. Vísir/Getty
Sameinuðu þjóðirnar segja að yfirvöld í Sýrlandi hafi samþykkt að íbúar Madaya og fleiri bæja í Sýrlandi hljóti neyðaraðstoð en íbúar bæjarins hafa sagst vera að svelta til dauða vegna herkvíar hersveita Bashar al-Assad.

Ástandið er sérstaklega slæmt í Madaya en ekki er ljóst hversu mikla aðstoð íbúar bæjarins, sem staðsettur er nokkrum kílómetrum frá Damaskus, muni hljóta en fregnir herma að íbúar bæjarins hafi neyðst til þess að borða gras og lauf til þess að halda sér á lífi.

Síðasta neyðaraðstoðarsending kom í október á síðasta ári og líða íbúar bæjarins ný skort á öllum helstu nauðsynjavörum. Íbúar og embættismenn Sameinuðu þjóðanna segja að fólk hafi dáið úr hungri í bænum.

Helstu nauðsynjavörur hafa hækkað mikið í verði í Madaya, kíló af hrísgrjónum kostar 32.000 krónur og kíló af stoðmjólk um 17.000 krónur.

Ástandið er víða slæmt í Sýrlandi vegna herkvía af hálfu herja Sýrlandsstjórnar. Sameinuðu þjóðirnar gera ráð fyrir að um 400.000 manns í alls 15 bæjum víðsvegar um Sýrland búi við herkví og sé ástand víða mjög slæmt vegna þeirra.

„Sameinuðu þjóðirnar fagna því að Sýrlandsstjórn hafi heimilað það að neyðaraðstoð berist til Madaya og fleiri bæja,“ sagði í yfirlýsingu frá Sameinuðu þjóðunum.

Varað er við myndum í þessu myndskeiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×