Erlent

Fíkniefnabaróninn El Chapo handtekinn í Mexíkó

Bjarki Ármannsson skrifar
Guzman, sem gengur undir viðurnefninu El Chapo eða „sá stutti,“ var einn alræmdasti fíkniefnasmyglari heims.
Guzman, sem gengur undir viðurnefninu El Chapo eða „sá stutti,“ var einn alræmdasti fíkniefnasmyglari heims. Vísir/AFP
Yfirvöld í Mexíkó hafa handtekið fíkniefnabaróninn Joaquin Guzman hálfu ári eftir að honum tókst að sleppa úr fangelsi.

Guzman, sem gengur undir viðurnefninu El Chapo eða „sá stutti,“ var einn alræmdasti fíkniefnasmyglari heims áður en hann var handsamaður. Glæpagengi hans smyglaði kókaíni, heróíni og amfetamíni frá Mexíkó til Bandaríkjanna.

Guzman slapp úr fangelsi í gegnum eins og hálfs kílómetra löng göng sem grafin voru úr sturtuklefa fangelsisins. Mikill viðbúnaður var í kjölfar flóttans, flugferðir úr landi lágu niðri á flugvöllum í grennd og Bandaríkjastjórn bauð fimm milljónir dala, rúmlega 650 milljónir íslenskra króna, fyrir upplýsingar um hvar hann væri að finna.

Að sögn Enrique Pena Nieto, forseta Mexíkó, var Guzman handtekinn í borginni Los Mochis í heimahéraði hans í norðvesturhluta landsins. Yfirvöld höfðu upp á honum nokkrum dögum áður en hann var handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×