Erlent

Ætlaði sér að ræna hundi Obama forseta

Atli Ísleifsson skrifar
Starfsmaður Hvíta hússins viðrar Bo og Sunny, hunda Obama-fjölskyldunnar.
Starfsmaður Hvíta hússins viðrar Bo og Sunny, hunda Obama-fjölskyldunnar. Vísir/AFP
Lögregla í Washington hefur handtekið mann sem grunaður er um að hafa ætlað sér að ræna öðrum af tveimur hundum Baracks Obama Bandaríkjaforseta og fjölskyldu hans.

Í frétt BBC kemur fram að lögregla hafi fundið riffil, skammbyssu og sveðju í bíl mannsins. Er hann grunaður um vopnalagabrot.

Við handtöku lýsti maðurinn því meðal annars yfir að hann hugðist bjóða sig fram til forseta og að hann væri launsonur John F. Kennedy Bandaríkjaforseta og leikkonunnar Marilyn Monroe.

Ekki liggur fyrir hvorn hund Obama-fjölskyldunnar maðurinn hafi ætlað sér að ræna – Bo eða Sunny. Hundar Obama eru portúgalskir vatnahundar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×