„Við eigum von á erfiðum og jöfnum leik gegn Íslandi. Við stefnum á að stýra umferðinni, vera mikið með boltann og skapa færi sem leiða til þess að við skorum mörk og vinnum leikinn,“ sagði bakvörðurinn Josip Pivaric í viðtali við Fréttablaðið í gær.
Þá var hann að mæta á kvöldæfingu hjá króatíska liðinu á Maksimir-vellinum þar sem leikur Króatíu og Íslands verður spilaður. Pivaric verður heldur betur á heimavelli þar enda spilar hann með Dinamo sem spilar sína heimaleiki á Maksimir.
Ísland og Króatía eru jöfn með sjö stig á toppi riðilsins og það er því ansi mikið undir í þessum leik.
„Við berum mikla virðingu fyrir Íslandi en þar sem við erum á heimavelli þá lítum við þannig á stöðuna að við eigum að vera sigurstranglegri. Það er allt mjög jafnt á milli okkar og við gerum okkur fyllilega grein fyrir því hversu mikilvægur leikurinn er. Auðvitað er undankeppnin samt ekki búin eftir þennan leik,“ segir Pivaric en hvað þarf króatíska liðið að varast hjá Íslandi?
„Helsti styrkur íslenska liðsins er hversu vel liðið vinnur saman. Það leggur líka mikið á sig. Þeir eru sterkir í návígi og vonandi náum við að svara því með hörku á móti. Við vitum hvað þeir geta verið hættulegir í hröðum upphlaupum. Við verðum að stöðva það.“
Eins og áður segir spilar Pivaric flesta sína leiki á þessum velli en hvernig upplifun verður það fyrir hann að spila fyrir framan tóman heimavöll?
„Það er erfitt fyrir alla að spila svona leiki. Okkar stuðningsmenn eru alltaf frábærir og því er vont að fá ekki stuðning þeirra. Þeir gefa okkur styrk er á þarf að halda. En við getum ekki notað það sem afsökun. Við verðum að sækja til sigurs.“
Króatinn Josip Pivaric: Erfitt fyrir alla að spila svona leiki
Henry Birgir Gunnarsson í Zagreb skrifar
