Forskot Hillary Clinton á Bernie Sanders í baráttunni um að verða forsetaefni Demókrataflokks Bandaríkjanna er nærri horfið ef marka má nýja skoðanakönnun IBD/TIPP sem birt var í gær.
Samkvæmt könnuninni nýtur Clinton nú stuðnings 43 prósenta líklegra kjósenda en Sanders 39 prósenta. Þetta er töluverð breyting frá síðustu könnun sem kom út í desember. Þá mældist Clinton með 51 prósent en Sanders 33. Kannanir IBD/TIPP hafa reynst nokkuð áreiðanlegar og voru áreiðanlegastar allra í kosningabaráttunni árið 2012.
Nú munar bara fjórum prósentustigum á Clinton og Sanders. Aldrei hefur verið jafn mjótt á munum milli þeirra. Forskot Clinton hefur verið 15 til 30 prósent frá því í haust.
Tæpar þrjár vikur eru í að fyrstu ríkin kjósi í forkosningum, Iowa og New Hampshire. Einnig er mjótt á munum í þeim ríkjum, Sanders hefur fjögurra prósentustiga forskot í því síðarnefnda og Clinton þriggja í því fyrrnefnda.

