„Ef við hefðum sagst ekki ætla að vera með, af því hvað? Af því við fengum happdrættisvinninginn af því að einhver makrílstofn synti vegna loftslagsbreytinga í okkar landhelgi? Og af því Rússar hafa sett Norðmenn á bannlista þá getum við grætt á því líka? Hvers konar andskotans hálvitaskapur er þetta?“ segir ráðherrann fyrrverandi um þá skoðun sumra að betra hefði verið að halda friðinn við Rússa til að geta haldið áfram sölu á makríl þangað.
Jón Baldvin var gestur í Bítinu á Bylgjunni í morgun og var fegninn til þess að miðla reynslu sinni. Eins og frægt er orðið var Jón Baldvin í eldlínunni upp úr 1990 þegar Ísland, fyrst þjóða, viðurkenndi sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna.

„LÍÚ var ekki ánægt með mig,“ segir Jón Baldvin. Þeir hafi klagað sig í bæði forystu Sjálfstæðisflokksins og Steingrím Hermannsson. LÍÚ hafi þó ekki farið grátandi í almenning. Þeir hafi vitað sem var og er að í stríði Davíðs við Golíat styðja Íslendingar Davíð.
„Þeir finna til með þeim sem berjast fyrir frelsi sínu.“

„Er flókið á innan við ári að leysa það mál? Er þessi vara óseljanleg á öðrum mörkuðum? Kunna þeir ekkert fyrir sér í business þessir náungar?“
Þegar þáttastjórnendur bentu Jóni Baldvini á að svo virðist sem ákvörðun Rússa að stunda ekki viðskipti við Íslendinga hafi komið á óvart svaraði ráðherrann fyrrverandi?
„Á óvart? Þetta er búið að standa í ár. Vika er langur tími í pólitík, hvað er þá ár í business?“
Viðtalið í heild sinni má hlýða á hér að neðan.