Fótbolti

Rúrik fékk sínar fyrstu mínútur frá því í ágúst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenski landsliðsmaðurinn Rúrik Gíslason.
Íslenski landsliðsmaðurinn Rúrik Gíslason. Vísir/Getty
Íslenski landsliðsmaðurinn Rúrik Gíslason fagnaði góðum útisigri með liði sínu Nürnberg í þýsku b-deildinni í kvöld.

Nürnberg sótti þá þrjú stig til Kaiserslautern og vann 3-0 sigur. Kaiserslautern verður Íslendingalið um áramótin þegar Jón Daði Böðvarsson gengur til liðs við liðið.

Patrick Ziegler, leikmaður Kaiserslautern, fékk rauða spjaldið á 18. mínútu og Nürnberg var því manni fleiri í 72 mínútur.

Even Hovland skoraði fyrsta markið á 42. mínútu og þeir Alessandro Schöpf og Guido Burgstaller bættu síðan við mörkum í seinni hálfleiknum.

Sigurinn skilaði Nürnberg upp í fjórða sæti deildarinnar en liðið hefur náð í þrettán stig út úr fyrstu átta leikjum sínum.

Rúrik Gíslason hefur þurft að bíða þolinmóður á bekknum í síðustu leikjum en fékk nú að spila síðustu níu mínúturnar.

Þetta voru fyrstu mínútur hans í deildinni síðan í leik á móti Fortuna Düsseldorf í lok ágúst.

Rúrik hafði setið á bekknum í fyrstu tveimur leikjum Nürnberg eftir landsleikjahléið eftir að hafa byrjað fjóra af fyrstu fimm leikjum tímabilsins.

Rúrik kom inná fyrir Guido Burgstaller í kvöld en sá hinn sami hafði skorað þriðja og síðasta mark Nürnberg í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×