Fótbolti

Suarez skaut Kínverjana í kaf og kom Barcelona í úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez fagnar einu marka sinna.
Luis Suarez fagnar einu marka sinna. Vísir/Getty
Luis Suarez var sá eini af MSN-þrenningu Barcelona-liðsins sem spilaði í undanúrslitaleik heimsmeistarakeppni félagsliða í dag en það var mikið meira en nóg.

Luis Suarez skoraði þrennu þegar Barcelona vann 3-0 sigur á kínverska liðinu Guangzhou Evergrande.

Barcelona mætir River Plate í úrslitaleiknum á sunnudaginn en argentínska liðið vann 1-0 sigur á Sanfrecce Hiroshima frá Japan í hinum undanúrslitaleiknum í gær.

Neymar er að koma til baka eftir meiðsli og sat allan tímann á bekknum í þessum leik en Lionel Messi veiktist skyndilega í aðdraganda leiksins og gat ekki spilað.

Luis Suarez hélt merki MSN á lofti í leiknum og það var enginn sem saknaði Messi eða Neymar.

Luis Suarez kom Börsungum í 1-0 á 39. mínútu þegar hann fylgdi eftir skoti Ivan Rakitic.

Staðan var síðan orðin 2-0 á 50. mínútu þegar Luis Suarez og Andres Iniesta spiluðu sig í gegnum vörn Kínverjanna sem endaði með því að  Suarez afgreiddi boltann í markið.

Suarez skoraði síðan þriðja markið sitt á 67. mínútu þegar hann skoraði úr vítaspyrnu sem Munir El Haddadi fiskaði.

Það eru bara þrír sólarhringar í úrslitaleikinn og því mikil óvissa með þátttöku Lionel Messi í úrslitaleiknum en það eru eflaust margir sem óska þess að sjá Messi spila á móti löndum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×