Erlent

Trump borgar vegginn með tollheimtu

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Donald Trump ætlar að reisa vegg til að halda ólöglegum innflytjendum úti.
Donald Trump ætlar að reisa vegg til að halda ólöglegum innflytjendum úti. vísir/epa
Donald Trump ætlar að láta Mexíkóa borga fyrir vegg á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna. Trump, sem sækist eftir útnefningu Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum til forsetaframboðs, hefur mikið verið spurður hvernig hann hyggist gera það og kynnti hann áform sín í gær.

Auðjöfurinn hyggst stórhækka gjöld sem Mexíkóar þurfa að greiða þegar þeir fara yfir landamærin og borga þannig upp vegginn ef mexíkóska ríkisstjórnin samþykkir ekki að borga vegginn.

Þar að auki sagði Trump í viðtali við NBC að hann hygðist draga til baka allar áætlanir núverandi forseta, Baracks Obama, er varða innflytjendamál. Trump var þó hvergi nærri hættur að tala um innflytjendamál en hann sagðist einnig ætla að vísa öllum ólöglegum innflytjendum úr landi, næði hann kjöri.

Ef tollarnir duga ekki til segist Trump ætla að hækka hafnargjöld sem mexíkósk skip greiða í Bandaríkjunum og skera á alla fjárhagsaðstoð sem Bandaríkjamenn veita Mexíkóum.

„Mexíkóska ríkið hefur tekið Bandaríkin í bakaríið. Það ber ábyrgð á innflytjendavandanum og því ber að leysa hann,“ sagði Trump. Trump nýtur nú fylgis um 22 prósenta kjósenda Repúblikana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×