Íslenski boltinn

Stelpurnar sem skelltu í lás

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Málfríður Erna Sigurðardóttir og Guðrún Arnardóttir hafa verið magnaðar.
Málfríður Erna Sigurðardóttir og Guðrún Arnardóttir hafa verið magnaðar. vísir/vilhelm
„Það er búið að ganga mjög vel hjá okkur og við höfum náð ótrúlega vel saman,“ segir Málfríður Erna Sigurðardóttir aðspurð um samstarf sitt við hinn miðvörð Blikanna, Guðrúnu Arnardóttur. Málfríður er á fyrsta ári með Blikum en hefur orðið fimm sinnum Íslandsmeistari með Val á sínum ferli. Hún þekkir því vel að vinna Íslandsmeistaratitilinn.

Ellefu árum yngri og hægra megin við hana í miðri vörninni er hin tvítuga Guðrún Arnardóttir. Guðrún er á sínu fjórða ári með Blikum en lék áður með Selfossi í b-deildinni. Líkt og margar í Blikaliðinu hefur Guðrún aldrei orðið Íslandsmeistari en eftir frábæra frammistöðu í sumar er titilinn í sjónmáli þegar fimm umferðir eru eftir.

Varnarleikur Breiðabliksliðsins hefur verið magnaður í Pepsi-deild kvenna í sumar enda liðið aðeins búið að fáa sig aðeins tvö mörk í fyrstu þrettán umferðunum. Það sem meira er að liðið fékk síðast á sig mark í deildarleik í maí.

Í sigurleiknum gegn Fylki á þriðjudagskvöldið héldu Blikastúlkur marki sínu hreinu í tíunda deildarleiknum í röð. Frammistaða Málfríðar Ernu Sigurðardóttur og Guðrúnar Arnardóttur hefur líka nánast verið upp á tíu í sumar.

Farnar að þekkja hvor aðra

„Þegar hún kom yfir í Breiðablik í vetur þá tók okkur smá tíma að slípa okkur saman. Ég vil líka meina að við höfum verið aðeins að því í byrjun móts og í fyrstu leikjunum. Nú erum við orðnar vel samstilltar og farnar að þekkja hvora aðra,“ segir Guðrún.

„Við erum báðar tilbúnar að hlusta á hvora aðra og leiðbeinum hvorri annarri mjög vel. Hún er líka ótrúleg,“ segir Málfríður og er alveg til í að hrósa Guðrúnu. „Hún er ótrúleg í öllu, mjög góð ein á móti einum, sterk í skallaboltum og er orðin mjög góð,“ segir Málfríður og virðingin er gagnkvæm.

„Það er mjög gaman að hafa hana hjá sér því hún er mjög skemmtileg manneskja. Hún er frábær leikmaður. Hún hefur reynsluna og er alltaf að hjálpa manni. Hún er góð í varnarvinnunni og gefur ekki dropa eftir sama hvað gerist,“ segir Guðrún og bætir við:

Eru ólíkar týpur

„Við erum samt frekar ólíkar týpur. Hún er líka með reynsluna en ég er ný í þessu. Ég held að það sé bara góð blanda því okkar kostir passa vel saman,“ segir Guðrún.

„Ég held að hún sé ekki bara að hjálpa mér heldur öllum í liðinu. Við erum líka allar að deila smá vitneskju til hverrar annarrar en hún er þar í stóru hlutverki. Við tvær þurfum ekki lengur eins mörg orð enda farnar að skilja fljótt hvað hin er að hugsa. Við Fríða náum að halda hvorri á tánum og erum ekkert að gleyma okkur,“ segir Guðrún.

Þær eru báðar fljótar að fara tala um mikilvægi annarra leikmanna í liðinu og að það sér ekki bara þeim að þakka að Breiðablik hafi haldið marki sínu í hreinu í 920 mínútur samfellt.

„Sonný Lára er að tala mjög mikið við okkur og vörnin er öll er búin að standa sig frábærlega. Svo má heldur ekki gleyma þeim sem spilar fyrir framan okkur,“ segir Málfríður og Guðrún talar á svipuðum nótum.

„Þetta er ótrúlega gott og það er alltaf markmiðið að halda hreinu en það gerir þetta auðveldara fyrir okkur í vörninni ef fremstu mennirnir sinna sinni varnarvinnu. Um leið og sú vinna er til staðar þá gerir þetta allt auðveldara fyrir okkur hinar. Varnarleikurinn okkar byrjar upp á topp,“ segir Guðrún.

vísir/vilhelm
Að breyta til eða að hætta

Málfríður Erna Sigurðardóttir ákvað að söðla um í vetur hálfu ári eftir að hún eignaðist sitt þriðja barn. Löngunin í fótboltann var enn staðar.

„Í vetur ætlaði ég annaðhvort að breyta til og gera eitthvað nýtt eða bara að hætta. Það er rosalega gaman að hafa tekið þessa ákvörðun og að hafa ekki hætta núna þegar gengur svona vel,“ segir Málfríður sem hefur ekki látið meiðsli eða barnseignir stoppa sig.

„Ég ætla að sýna þessum stelpum að þetta er ekkert búið þótt að maður sé búin að eignast börn. Þetta verður líka ekki síðasta tímabilið. Þegar gengur svona vel þá vill maður vera áfram,“ segir Málfríður í léttum tón.

Breiðabliksliðið hefur unnið 12 af 13 leikjum í Pepsi-deildinni og ekki tapað deildarleik í sumar. Málfríður segir samt að það hafi nú verið heilmikið að gera hjá þeim.

„Deildin er orðin allt öðruvísi og í gamla daga var miklu minna að gera hjá manni heldur en núna. Það hefur oft munað litlu að við höfum fengið á okkur mark í þessum tíu leikjum og meðal annars oft á móti Stjörnunni. Við höfum oft náð að bjarga á síðustu stundu og Guðrún bjargaði meðal annars mjög vel á síðustu stundu í síðasta leik á móti Fylki,“ segir Málfríður.

Málfríður vann síðast Íslandsmeistaratitilinn með Val sumarið 2010 en síðasti bikargullið fór um háls hennar árið eftir. Breiðablik vann síðast Íslandsmeistaratitilinn fyrir tíu árum. Málfríður talar sérstaklega um hungrið í Blikaliðinu nú.

Mikið hungur í Blikaliðinu

„Það er mjög mikið hungur í stelpunum í liðinu að vinna Íslandsmeistaratitilinn og það er mjög gaman fyrir mig að finna þetta hungur aftur og vera í liði sem vill svona mikið vinna. Leikurinn við Stjörnuna er næsti leikur og það er mjög gaman að fara að mæta þeim,“ segir Málfríður.

„Þetta er fjórða árið hjá mér í Breiðabliki og það eins sem við erum búnar að vinna er að taka bikarinn einu sinni. Ég hef aldrei unnið Íslandsmeistaratitilinn og það er langt síðan að Breiðablik vann hann síðast. Auðvitað langar mann alltaf að vinna.

Þetta er búið að vera framar okkur vonum. Þegar liðið er orðið svona samstillt og allar skila sinni vinnu þá er allt hægt,“ segir Guðrún og viðurkennir fúslega að það er auðveldara að landa sigrum þegar vörnin heldur.

„Við höfum unnið nokkra mikilvæga sigra í sumar 1-0 og í þeim leikjum hefur verið þægilegt að þurfa bara að skora eitt mark til þess að vinna,“ segir Guðrún.

Nóg af skrefum eftir í sumar

Þær tala báðar af virðingu um næstu mótherja, ríkjandi Íslandmeistara úr Garðabænum.

„Þetta fjögurra stiga forskot er ekki neitt neitt. Við eigum Stjörnuna í næsta leik og við einblínum núna á þann leik. Við tökum bara einn leik í einu og reynum að klára hann með stæl. Þær eru búnar að fá nokkra leikmenn og eru að standa sig vel í Evrópukeppninni,“ segir Guðrún en viðurkennir að mikilvægt sé að klára toppslaginn.

„Það væri stórt skref í rétt átt að ná góðum úrslitum á móti Stjörnunni en það er alls ekki lokaskrefið. Það er alveg nóg að skrefum eftir á þessu Íslandsmóti. Það eru fimm leikir eftir og við verðum að passa okkur á því að taka bara eitt skref í einu,“ segir Guðrún.

„Við erum búnar að vera spila mjög vel saman og allt liðið er að standa sig vel. Það er búið að smella allt saman hjá okkur í sumar,“ segir Málfríður og það er hægt að taka undir það. Miðverðirnir tveir eiga líka mikið hrós skilið. Að fá á ekki mark á sig í yfir 900 mínútur í efstu deild er ekkert venjulegt afrek og kæmi aldrei til nema að miðja varnarinnar sé í toppstandi.

Varnarmennirnir skora meira en andstæðingarnir

Miðverðirnir Málfríður Erna Sigurðardóttir og Guðrún Arnardóttir eru tvær af níu leikmönnum liðsins sem hafa skorað fleiri mörk en mótherjar Blika í síðustu tíu leikjum liðsins í Pepsi-deildinni.

Breiðablik hefur skorað 28 mörk í röð í deildinni án þess að mótherjum liðsins hafi tekist að svara fyrir sig.

Þær sem hafa skorað þessi 28 mörk eru eftirtaldar: Fanndís Friðriksdóttir (11 mörk), Telma Hjaltalín Þrastardóttir (5), Aldís Kara Lúðvíksdóttir (4), Rakel Hönnudóttir (3), Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir (1), Guðrún Arnardóttir (1), Hildur Sif Hauksdóttir (1), Jóna Kristín Hauksdóttir (1), Málfríður Erna Sigurðardóttir (1).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×