Erlent

Strokið þykir mikið áfall fyrir forsetann

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Forseti Mexíkó sagði á sínum tíma ófyrirgefanlegt ef Joaquin Guzman næði að strjúka aftur.
Forseti Mexíkó sagði á sínum tíma ófyrirgefanlegt ef Joaquin Guzman næði að strjúka aftur. nordicphotos/afp
Hlið hafa verið sett upp á hraðbrautum, landamæragæsla stórlega efld og flugvöllum hefur verið lokað í tilraun Mexíkómanna til að fanga eiturlyfjabaróninn Joaquin Guzman sem strauk úr öryggisfangelsi á laugardag. Aðgerðirnar hafa ekki borið árangur.

Strok Guzmans þykir mikið áfall fyrir forseta Mexíkó, Enrique Peña Nieto. Yfirvöld náðu að handsama Guzman í fyrra eftir að hann hafði strokið árið 2001. Var forsetinn þá spurður af blaðamanni hvort möguleiki væri á að Guzman gæti strokið aftur.

„Það væri meira en óheppilegt. Það væri ófyrirgefanlegt. Ríkisstjórnin mun gera ráðstafanir til að tryggja að það gerist aldrei aftur,“ svaraði forsetinn.

Peña Nieto lofaði þjóð sinni í gær að handsama Guzman á ný.

Peter Bensinger, fyrrverandi framkvæmdastjóri DEA, fíkniefnalögreglu Bandaríkjanna, sagði í gær að strok Guzmans væri mikið áfall og að hann hefði átt að vista í bandarísku fangelsi. Bandaríkin höfðu krafist framsals Guzmans, sem er ákærður fyrir fíkniefnabrot.

Peña Nieto hefur barist fyrir því að Mexíkó rétti yfir og fangelsi eigin stórglæpamenn í stað þess að framselja þá til Bandaríkjanna eins og áður var.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×