Fótbolti

Maradona í FIFA framboð

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Argentínska knattspyrnugoðsögnin Maradona hyggst bjóða sig fram til forseta FIFA.
Argentínska knattspyrnugoðsögnin Maradona hyggst bjóða sig fram til forseta FIFA. nordicphotos/getty
Argentínska knattspyrnuhetjan Diego Armando Maradona, sem spilaði á sínum tíma meðal annars með Napólí og Barcelona, hyggst bjóða sig fram til forseta alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA.

Vinur Maradona, úrúgvæski blaðamaðurinn Victor Hugo Morales, greindi frá framboðinu á Twitter í gær. Morales sagði Maradona hafa gefið sér leyfi til að tilkynna um fyrirhugað forsetaframboð kappans.

Fyrr í mánuðinum hvatti annar Úrúgvæi, forsetinn Nicolás Maduro, Maradona til að bjóða sig fram til forseta FIFA.

Maradona hefur lengi talað gegn fráfarandi forseta FIFA, Sepp Blatter, sem tilkynnti að hann myndi segja af sér örfáum dögum eftir endurkjör hans. Afsögnin kemur í kjölfar umfangsmikils spillingarhneykslis sem skekur samtökin þessa dagana.

Auk Maradona munu brasilíska knattspyrnugoðsögnin Zico, sem spilaði meðal annars með Flamengo og Udinese og á sínum tíma, og Musa Bility, formaður knattspyrnusambands Líbíu, bjóða sig fram til forseta.

Frambjóðendur þurfa stuðning fimm mismunandi knattspyrnusamtaka til þess að eiga möguleika á framboði.

Líklegt er að kosið verði í kring um næstu áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×