Innlent

Tveimur geðdeildum lokað

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
María Einisdóttir
María Einisdóttir VÍSIR/VALLI
„Við erum að útskrifa fólk of snemma og gæði þjónustunnar hafa snarminnkað,“ segir María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans.

Loka hefur þurft tveimur deildum á geðsviði og einni til viðbótar að hluta til vegna verkfalls hjúkrunarfræðinga sem staðið hefur frá 27. maí. Deildirnar sem eru lokaðar eru göngudeild fíknimeðferðar og almenn endurhæfingardeild á Kleppsspítala.

Geðhjúkrun er veigamikill þáttur í meðferð á geðsviði og því hefur verkfallið veruleg áhrif á starfsemina.

„Við sinnum öllu því sem er brátt en hitt þarf að bíða. Þetta veldur því að álagið á bráðaþjónustuna verður meira og við vorum undirmönnuð fyrir,“ segir María.

Sjúklingar þurfa að bíða heima eftir að komast inn. María segir áhættumat vera gert á fólki og að farið sé vandlega yfir það áður en fólk sé útskrifað. „Þetta er grafalvarlegt mál og geðsjúkdómar geta verið banvænir,“ segir hún.

María segist ekki hafa trúað því að deilan myndi standa svo lengi. Enginn hjúkrunarfræðingur hefur sagt upp á sviðinu vegna verkfallsins en hún segist vita til þess að margir séu að hugsa sér til hreyfings. „Ég held að almenningur virði störf hjúkrunarfræðinga en ég held að stjórnmálamenn skorti skilning.?"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×