Erlent

Allir fá að auglýsa á Instagram

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Facebook er stórhuga þegar framtíð Instagram er annars vegar.
Facebook er stórhuga þegar framtíð Instagram er annars vegar. VÍSIR/GETTY
Facebook hyggst stórefla auglýsingaflæði á Instagram og geta nú öll fyrirtæki nýtt þenna ört stækkandi miðil.



Auglýsingum á Instagram kemur til með að fjölga verulega á næstunni. Facebook hefur tilkynnt að öll fyrirtæki geti nú auglýst með samskiptaforritinu en ekki nokkur vel valin eins og hingað til. Í yfirlýsingu frá Facebook segir að fyrirtækið muni á næstunni efla greiningu sína á áhugamálum, aldri og lýðfræðilegum einkennum notenda sinna til að stækka gagnasöfn sín sem þegar eru risavaxin.

Þá verða auglýsingarnar gagnvirkar að hluta og notendur Instagram munu geta keypt vörur í gegnum smáforritið og náð þar í önnur smáforrit sem auglýsendur vekja athygli á.

„Þessar uppfærslur munu algjörlega breyta eðli og eiginleikum Instagram,“ segir Debra Aho Williamson, sérfræðingur hjá eMarketer. „Nýjar leiðir í markaðssetningu á Instagram eru einmitt það sem auglýsendur hafa beðið eftir.“

Snjallsímanotendur skipa sífellt stærri hluta af heildartekjum Facebook en þeir skiluðu fyrirtækinu 968 milljörðum króna í tekjur á síðasta ári. Það er 135,7% aukning frá árinu 2013 og er 17,4% af heildartekjum snjallsímaauglýsingageirans á heimsvísu. Aðeins Google stendur betur að vígi.

Í sameiginlegri yfirlýsingu frá stjórnendum Facebook og Instagram á dögunum kemur fram að greiningarfyrirtækið Nielsen metur auglýsingaherferðir á Instagram 2,9 sinnum líklegri til að skila árangri en þær sem birtast á öðrum samfélagsmiðlum.

„Fólk vill komast í kynni við fyrirtæki og þjónustu af öllum toga á Instagram, allt frá uppáhaldsfatabúðinni og veitingastöðum til stærstu vörumerkja veraldar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×