Starfsmenn Landspítala, sem tilheyra fjórum aðildarfélögum innan Bandalags háskólamanna, hefja verkfall í dag. Þetta eru geislafræðingar, lífeindafræðingar, náttúrufræðingar og ljósmæður. Aðgerðir verða enn umsvifameiri á fimmtudaginn þegar samstöðuverkföll fara fram.
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, starfandi forstjóri Landspítala, segir að verkfallið muni hafa verulega truflandi áhrif á starfsemi Landspítalans þann tíma sem það varir. „Þetta er aðeins öðruvísi heldur en læknadeilan, en ég held að þetta hafi ekkert síður áhrif á starfsemi spítalans en læknadeilan hefur haft. Þannig að við eigum svolítið eftir að sjá hvernig næsta vikan þróast,“ segir Guðlaug Rakel í samtali við Fréttablaðið.
Lífeindafræðingar sem starfa á Landspítalanum verða í verkfalli alla daga frá klukkan átta til tólf. Ljósmæður verða í verkfalli á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum, en geislafræðingar verða í verkfalli allan tímann.
Guðlaug Rakel segir að fæðingagangurinn á Kvennadeildinni muni starfa eins og flesta daga þar á undan og flestir starfsmenn þar séu á undanþágu. „En þetta mun hafa áhrif á skipulagða keisaraskurði, áhættumæðraeftirlit og svoleiðis. Bráðaþjónustu er sinnt en það sem má bíða það bíður,“ segir Guðlaug Rakel.
Guðlaug segir að verkfallið muni einnig hafa áhrif á hjartaþræðingar. Neyðartilvikum verði sinnt en skipulagðar aðgerðir og annað sem getur beðið, verður látið bíða. „Þannig að það verður heilmikil röskun á starfseminni og þetta mun hafa víðtæk áhrif á starfsemi spítalans og þjónustu við sjúklinga. Þetta er flókin og viðkvæm starfsemi sem er keyrð á fullum afköstum alla daga og þetta hefur mikil áhrif á starfsemina og þjónustu við sjúklinga,“ segir hún.
„Við höfum áhyggjur af öryggi í svona aðstæðum. En við í framkvæmdastjórninni ætlum að hittast í fyrramálið klukkan átta og fara yfir það hvernig dagurinn fer af stað. Síðan fundum við mjög reglulega til að reyna að grípa inn í ef það er eitthvað sem stefnir í, sem við getum gripið inn í. Þannig að við þurfum að vakta þetta frá klukkutíma til klukkutíma,“ segir Guðlaug Rakel.

