Innlent

Einkaaðilar komi að uppbyggingu í Keflavík

jón hákon halldórsson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var á meðal gesta á Iðnþingi í gær.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var á meðal gesta á Iðnþingi í gær. fréttablaðið/vilhelm
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ætlar að skoða hvort heppilegt sé að einkaaðilar komi að milljarða tuga uppbyggingu sem framundan er á Keflavíkurflugvelli. Unnin hefur verið uppbyggingar- og þróunaráætlun til næstu 25 ára.

„Það er nú þegar farinn af stað áfangi sem er upp á meira en 20 milljarða og það er líka fyrirséð miðað við þær áætlanir sem eru í kortunum að þá þurfi í beinu framhaldi að fara í annan ef ekki stærri áfanga,“ segir Bjarni Benediktsson varðandi uppbygginguna framundan.

„Ég er ekki síst að horfa til þess að það kann að vera heppilegt að ríkið taki ekki á sig alla þá áhættu sem fylgir því að fara í tugmilljarða viðbótarfjárfestingar á Keflavíkurflugvelli og það er ekki rökbundin nauðsyn að ríkið eigi hvern einasta fermetra í flughlöðum og tengibyggingum sem einkaaðilar hafa sýnt áhuga á að fjármagna og jafnvel eiga og reka,“ segir hann.

Bjarni telur að það séu síðan aðrir þættir sem þurfi að skoða. „Til dæmis það hvort ríkið eigi að vera rekstraraðili að komuversluninni, eða hvort það eigi einfaldlega að bjóða slíka þætti út,“ segir Bjarni. Það sé vilji til þess að skoða þetta, meðal annars í þeim tilgangi að losa um fjármagn og auka viðskiptafrelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×