Margrét Lára, sem er markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi með 71 mark í 94 leikjum, er mætt aftur til starfa eftir meiðsli og barneign. Hún spilaði síðast landsleik 31. október 2013.
„Það er alveg frábær tilfinning að vera komin aftur. Maður hefur stefnt að þessu allan tímann. Takmarkið var alltaf að koma aftur og þetta er bara byrjunin. Ég þarf að hafa þolinmæði þar sem ég hef verið lengi frá en fyrst og fremst er bara frábært að vera komin aftur í hópinn, vera mætt til Algarve í sólina og spila á móti bestu þjóðum heims. Það gerist ekki betra,“ segir Margrét Lára.

„Ég datt bara í annað hlutverk. Ég saknaði fótboltans og alls félagsskaparins sem honum fylgir en að sama skapi fær maður lítinn gullmola í hendurnar sem maður týnir sér með. Ég sé ekkert eftir þeim tíma en það er gaman að geta samtvinnað móðurhlutverkið og fótboltann. Það er fátt sem toppar það,“ segir Margrétar Lára sem ætlar sér stóra hluti á seinni hluta ferilsins.
„Maður setur auðvitað kröfur á sjálfan sig. Ég ætla ekkert bara að vera með. Ég þarf samt að vera skynsöm því ég hef verið að berjast við meiðsli. Allt gengur samt vel og er á uppleið. Ég er spennt að komast út á völlinn og ég hef fulla trú á að ég geti komið sem betri leikmaður til baka. Ég hef reynsluna og hef róast með aldrinum. Ef allt gengur að óskum vonast ég til að geta toppað á mínum ferli núna.“
Margrét er á sínu fyrsta Algarve-móti undir stjórn Freys Alexanderssonar, en spilamennska liðsins hefur tekið miklum breytingum undir hans stjórn.
„Ég er bara spennt að komast inn í þetta. Ég þurfti nánast auka töflufundi til að komast inn í þetta en ég hef verið fljót að læra. Ég læri nýja hluti á hverjum degi og hlakka mikið til,“ segir Margrét Lára sem er með fjölskylduna með sér úti.
„Litli pjakkurinn er enn á brjósti þannig að hann er með mér hérna úti og pabbi hans líka. KSÍ hefur staðið þétt við bakið á mér og öll fjölskyldan en án þessa fólks væri þetta ekki hægt,“ segir Margrét Lára Viðarsdóttir en systir hennar, Elísa Viðarsdóttir, er einnig í landslisðhópnum.