Innlent

Líkur á jarðstreng við Akureyri aukast

Svavar Hávarðarson skrifar
Áform um línulögn yfir útivistarsvæði og við flugvöllinn á Akureyri hafa valdið deilum.
Áform um línulögn yfir útivistarsvæði og við flugvöllinn á Akureyri hafa valdið deilum. fréttablaðið/auðunn
Líkurnar á því að lagður verði jarðstrengur sem hluti af raflínu frá Akureyri um Eyjafjörð í átt að Kröflu hafa aukist með úttekt verkefnishóps á vegum Landsnets á lagningu háspennustrengja á Íslandi. Úttektin bendir til að kostnaðartölur við framkvæmdina séu innan þeirra kostnaðarmarka sem drög að þingsályktunartillögu um lagningu flutningslína í jörðu miða við.

Spurður um niðurstöður sérfræðingahópsins segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, að líkurnar hafi aukist að því leytinu til að með jarðstreng sé hægt að fara styttri leið en með loftlínu, sem leysi öryggismálin og ákveðna umhverfislega þætti, fyrir svipaða upphæð og loftlínu.

guðmundur i. ásmundsson
Þó þarf að leggja annan jarðstreng síðar vegna aukningar á flutningsþörf, en heildarkostnaðurinn af þeirri framkvæmd væri líklega innan ramma þingsályktunarinnar.

„Það hlýtur að auka líkurnar á að menn telji þetta skynsamlegt,“ segir Guðmundur sem vill stíga varlega til jarðar. Ástæðan er ekki síst sú að stjórnvöld séu enn að ræða stefnumörkun í jarðstrengjamálum og enginn viti hver niðurstaðan af því verði.

Guðmundur Ingi bendir á að vinna sérfræðingahóps Landsnets hafi beinst að því að ná niður kostnaði við lagningu jarðstrengja á öllum sviðum. Bæði verðinu á strengjunum sjálfum sem hefur lækkað vegna aðstæðna á markaði, og hins vegar að finna hagkvæmustu kosti við jarðstrengjalögnina sjálfa og frágang. „Það er ekki síst þar sem við höfum náð góðum árangri,“ segir Guðmundur Ingi.

Bæði Akureyrarbær og Eyjafjarðarsveit hafa til þessa gagnrýnt áform Landsnet um loftlínulögn yfir þetta viðkvæma svæði sem um ræðir. Hafa sveitarfélögin talið hag sínum betur borgið með því að leggja jarðstreng á þeim hluta sem var til athugunar hjá verkefnishópnum, og farið fram á að samráð verði haft um framkvæmdina.

Áhyggjur af flugöryggi við Akureyrarflugvöll hefur verið nefnt og umhverfismál við útivistarsvæði í nágrenni bæjarins, ekki síst Eyjafjarðará og Kjarnaskóg. Landsnet hefur til þessa bent á kostnaðinn sem því fylgir að velja jarðstrengjalausn í stað loftlínu og takmörkunum sem lagarammi setur fyrirtækinu – eða að ætíð sé hagkvæmasti kosturinn valinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×