Fótbolti

Lekasíða kom upp um Twente | Þriggja ára félagaskiptabann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Hollenska félagið FC Twente virðist að hruni komið en félagið hefur nú verið dæmt í þriggja ára félagaskiptabann af hollenska knattspyrnusambandinu.

Twente, sem varð hollenskur meistari árið 2010 er Steve McClaren var stjóri liðsins, seldi hluta af sölurétti leikmanna sinna til utanaðkomandi aðila sem er bannað samkvæmt lögum Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA.

Félagið hefur átt í viðskiptum við fjárfestingafélagið Doyen Sports Investments sem er starfrækt á Möltu en leyndi því fyrir knattspyrnuyfirvöldum í Hollandi.

Fjallað er um málefni Doyen Sports og Twente í bandaríska stórblaðinu New York Times í dag en þar kemur fram að vefsíða að nafni Football Leaks, sem sækir fyrirmynd sína í WikiLeaks, hafi komið upp um viðskiptahætti hollenska félagsins.

Football Leaks hefur áður birt leynileg gögn um viðskipti knattspyrnufélaga í Portúgal, Englandi, Spáni, Frakklandi, Lúxemborg og Mónakó.

Forráðamenn félagsins hafa sagt að þeir muni ekki áfrýja úrskurðinum en Twente er sem stendur í þriðja neðsta sæti hollensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×