Innlent

Skapandi leikur við bryggjuna

Erla Björg Gunnarsdótti skrifar
Undirbúningur var í fullum gangi þegar ljósmyndari kom við á leikvellinum. Frá vinstri: Inga María, Almar, Linda Mjöll, Liljar Már og Árni Þór. Þörbjörn Emil skellti sér í kafarabúning.
Undirbúningur var í fullum gangi þegar ljósmyndari kom við á leikvellinum. Frá vinstri: Inga María, Almar, Linda Mjöll, Liljar Már og Árni Þór. Þörbjörn Emil skellti sér í kafarabúning. Fréttablaðið/Pjetur
Á opnu svæði á milli Slippsins og Sjóminjasafnsins hefur risið heldur óvenjulegt leiksvæði í tilefni af Hátíð hafsins. Linda Mjöll Stefánsdóttir leikmyndahönnuður hefur undanfarna daga hannað svæðið ásamt góðum hópi aðstoðarmanna.

„Þetta er bryggjusprell og hefur verið partur af Hátíð hafsins síðustu tvö ár. Okkur langaði að breyta umhverfi leikja á þessari hátíð, hafa eitthvað annað en hoppukastala og gera leikvöll sem tengist svæðinu – sjó og bryggju,“ segir Linda.

Allur efniviður á leiksvæðinu tengist sjónum á einhvern hátt og er endurnýttur frá gjafmildum nágrönnum vallarins. „Efnið er sett inn í leikinn á óhefðbundinn hátt þannig að börnin fá tilfinningu fyrir að þetta er ekta. Þetta eru vinnutæki. Belgir hanga eins og rólur, net liggja um völlinn ásamt fiskkörum. Svo lyktar þetta eins og hafið. Það er rétta lyktin fyrir þessa hátíð,“ segir Linda hlæjandi og bætir við að leikvöllurinn sé til þess gerður að efla frjálsan og skapandi leik.

Sköpunargáfa barnanna fær að njóta sín

„Það er ekki skipulögð dagskrá en hér er hægt að klifra og búa til ævintýralega kastala. Fara í koddaslag á stórum trédrumbi, taka þátt í smíðasmiðju og búa til eitthvað úr efniviðnum.“

Þegar blaðamaður nær tali af Lindu er verið að leggja lokahönd á leikvöllinn. Hann er þó nú þegar fullur af krökkum á öllum aldri.

„Það eru börn hér úti um allt. Þau eru að færa til efniviðinn og búa sér til kofa úr því sem þau finna. Það er svo gaman að horfa á þau skapa úr efniviðnum. Sérstaklega eldri börn sem maður sér aldrei á hefðbundnum leikvöllum. Þetta er mér mikilvægt, að börn hafi valkosti í leik og fái að vera skapandi.“

Hvað: Bryggjusprell á Hátíð hafsins

Hvar: Á milli Slippsins og Sjóminjasafnsins

Hvenær: Laugardag og sunnudag, kl. 12-18.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×