Innlent

Raunverulegt spilavíti í stofunni heima

Jakob Bjarnar skrifar
Nú geta menn „gengið“ inn á raunverulegt casino án nokkurra vandkvæða; eina sem þarf er tölva og nettenging.
Nú geta menn „gengið“ inn á raunverulegt casino án nokkurra vandkvæða; eina sem þarf er tölva og nettenging.
Veðmálavefurinn Betsson býður nú upp á tækninýjungar sem felast í aðgangi að raunverulegu spilavíti á netinu. Ef farið er á vefinn má stíga inn í spilavíti, úr stofunni heima í gegnum glugga tölvunnar. Það sem blaðamaður hefur prófað er staðsett í Lettlandi. Þar eru gjafarar sem tala við gesti og raunveruleg fjárhættuspilastarfsemi á rauntíma fer fram. Með öðrum orðum; þeir sem spila eru ekki að spila við vél heldur við raunverulegt borð í alvöru Casino.

Sjáum nánar hvernig viðmótið er, það gefur hugmynd en lýsir þó ekki fyllilega hvernig það er að spila við fullt Black Jack-borð, þar sem handagangur getur verið í öskjunni:





Svo það liggi fyrir þá hafði fulltrúi Betsson samband við blaðamann og vildi vekja athygli hans á þessari nýjung – sem vissulega má heita athyglisverð. Blaðamaður fékk auk þess spilapeninga til að átta sig á virkninni. Þessum spilapeningum tapaði blaðamaður samviskusamlega, svo öllu sé til haga haldið. En, prófað var að spila bæði Black Jack og Roulettu.

Raunverulegir, fagmannlegir og daðrandi gjafarar

Undirritaður var að yfirleitt að leggja undir fimm Evrur í Black Jack, hann hafði tvö hundruð Evrur til að spila úr; fimm Evrur eru lágmarksboð á borði þar sem lægst boð voru leyfð. Blaðamannablókin reyndist algjört síli því boð við borðið voru að meðaltali 100 Evrur. Svo mátti fara á borð þar sem lágmarksboð var miklu hærra þannig að fyrirliggjandi er að þarna var verið að spila fyrir verulega háar fjárhæðir; í það minnsta í augum þess sem býr við íslenskt efnahagskerfi.

Willum Þór hefur hefur lagt fram frumvarp en ríkisstjórnin er ekki með málið á dagskrá.
Blaðamaður hefur heimsótt spilavíti, eða Casino, um heim allan: Amsterdam, á Spáni, í Bandaríkjunum, í London, í Prag og munurinn á því að sitja heima í stofu og spila með fulltingi tölvunnar og að vera á staðnum er sáralítill. Spilað er á rauntíma fyrir raunverulega peninga. Hægt var að spjalla við gjafarana, með spjallforriti, en þeir eru yfirleitt ungt fólk vel á sig komið. Af báðum kynjum. Kristína var til dæmis málglöð og hélt mönnum vel við efni. Greinilega algjör fagmaður, talaði ágæta ensku með hreim og daðraði við mannskapinn. Hún tjáði mér að ég væri kominn til Lettlands. Þarna var mikið að gera, öll borð full þegar blaðamaður reyndi sig við spilaborðin.

Lögleg spilamennska

Þó Betsson væri viljugt að kynna blaðamanni þessa nýjung, og fyrirspurnum væri svarað kurteislega eru ýmsar upplýsingar bundnar trúnaði, til að mynda er snúa að veltu; bæði fyrirtækisins sem og þeirra einstaklinga sem spila á vefnum. Og svo eru ýmsar upplýsingar einfaldlega ekki fyrirliggjandi: Blaðamanni lék til að mynda forvitni á því að vita hversu margir Íslendingar leggja stund á fjárhættuspil á netinu? En, slíkar upplýsingar eru vandfundnar, og Betsson gefur ekki upp hversu margir Íslendingar eru meðal viðskiptavina fyrirtækisins. Fulltrúi Betsson vildi þó undirstrika að starfsemin væri í öllu lögleg og stæðist að fullu ESB-löggjöf með tilskildu eftirliti.

Ólöf Nordal segir nauðsynlegt að taka afstöðu til þess lagalega misræmis sem ríkir -- en sú afstaða sé ekki fyrirliggjandi.visir/valli
Íslensk lög banna rekstur Casinos

Nú blasir við lagalegt misræmi, sem til er komið vegna alþjóðavæðingar sem fylgir netinu. Íslensk lög stangast á við lög sem í gildi eru í löndunum í kringum okkur. Starfsemi spilavíta, eða það sem heitir Casino úti í hinum stóra heimi, er bönnuð á Íslandi. Reglulega gerir lögregla rassíur í þessum efnum og stöðvar slíka starfsemi, þar sem stundað er fjárhættuspil. Lög eru reyndar fremur óskýr: Sá sem gerir sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða það að koma öðrum til þátttöku í þeim, skal sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári ef sakir eru miklar. Og svo þetta sem er að hver sem aflar sér tekna beint eða óbeint með því að láta fjárhættuspil eða veðmál fara fram í húsnæði, sem hann hefur yfiráð yfir, skal sæta sektum og fangelsi allt að einu ári.

Sagan geymir ýmsar tilraunir til reksturs spilavíta og erindi fótboltatvíburanna ofan af Skaga, Bjarka og Arnars Gunnlaugssona, sem hafa talað fyrir því að löggjöf verði breytt í þá veru að reka megi Casino á Íslandi, var til nokkuð til umfjöllunar árið 2010 en fjaraði út.

Lagalegt misræmi að mati ráðherra

Ólöf Nordal innanríkisráðherra tekur undir, að þarna gæti misræmis. „Þetta er rétt ábending og það er nauðsynlegt að taka afstöðu til þessa atriðis en sú afstaða liggur ekki fyrir að svo komnu máli,“ segir Ólöf, þá varðandi hvort ekki sé nauðsynlegt að samræma þetta?

Ögmundur Jónasson er einarður andstæðingur alls sem kenna má við fjárhættuspil. Hann rakst á vegg þegar hann sem innanríkisráðherra vildi skrúfa fyrir „tölvuvítin“.visir/anton
Almennt má segja um málið að það sé ekki beinlínis ofarlega á dagskrá í ráðuneytinu né að sjá menn fram á að svo verði á næstunni. Innanríkisráðuneytið hefur verið í samstarfi við happdrættisfélögin um vinnu við happdrættislöggjöfina, þróunina í þessum málaflokki og fleira. Sú vinna heldur áfram en það liggur ekki fyrir á þessari stundu hvaða stefnu sú vinna tekur. Ekki hefur verið ákveðið hvort leyfa eigi Casino á Íslandi en ekki stendur til að banna síður sem nefndar eru. Og: Ekki liggja fyrir upplýsingar innan ráðuneytisins um það hversu margir leggja stund á fjárhættuspil á netinu.

Willum Þór Þórsson alþingismaður hefur greint frá því að hann sé með frumvarp í vinnslu, reyndar lagt það fram, sem gengur út á að leyfa rekstur spilavíta á Íslandi, en ef marka má ráðherra innanríkismála er það frumvarp ekki inni í myndinni hjá ríkisstjórninni.

Tilraunir til banns sigldu í strand

Víst er að þessi starfsemi er eitur í beinum þeirra sem hatast við fjárhættuspil. Einn þeirra sem helst hefur látið til sín taka í þeim efnum er Ögmundur Jónasson fyrrverandi innanríkisráðherra. Og hann hafði látið fara fram umfangsmikla vinnu innan ráðuneytisins sem nú er í saltpækli.

„Utan um tölvuvítin þarf að ná og það hafði ég á prjónunum en var með nánast allt kerfið – ekki síst hið pólitíska, á móti mér. Málið er stopp,“ segir Ögmundur í samtali við Vísi.

„Trompið sem ég ætlaði að nota var að um leið og ég setti spilavéla bransann undir raunverulegt eftirlit og skorður nokkuð að norskri fyrirmynd þá ætlaði ég að opna á tölvuspil fyrir þessi fyrirtæki en þó þannig að einnig þar - og ekki síst þar yrðu strangar skorður í samvinnu við greiðslukortafyrirtækin. En þá var hrópað persónufrelsi og njósnir!“

Þó þessar ráðagerðir hafi siglt í strand má ljóst vera að Ögmundur er hvergi nærri búinn að gefa það uppá bátinn hugmyndir um að koma í veg fyrir fjárhættuspilamennsku af þessu tagi sem hér um ræðir.

Þórarinn Tyrfingsson og SÁÁ meta það sem svo að nýgengi greindra spilafíkla sé um 70 á ári, sem bendir til þess að starfsemin sé verulega umfangsmikil.
Nýgengi spilafíkla greind um 70 á ári

Ef menn vilja reyna að fá botn í hversu umfangsmikil fjárhættuspilastarfsemi er á Íslandi getur það gefið nokkra hugmynd, hversu margir kljást við vanda tengdri slíkri spilamennsku. Þórarinn Tyrfingsson, forstjóri SÁÁ og fyrrverandi yfirlæknir á Vogi segir að vilji menn komast að sannleikanum í því hversu margir leggja stund á fjárhættuspil, þurfi að rýna í tölur hjá ýmsum heilbrigðis- og geðheilbrigðisstofnunum. Á Vogi er í boði meðferð við spilafíkn og hefur verið lengi, allt frá 8. áratug síðustu aldar og voru þá til að mynda fengnir sérfræðingar í þessum efnum frá Las Vegas til ráðgjafar. Erfitt getur reynst að meta hversu umfangsmikil spilafíkn er, þar kemur inn í afneitun, að sögn Þórarins; auk þess sem spilafíkn er oft tengd og í bland við aðra fíknisjúkdóma.

„En nýgengi á ári er greind hjá okkur um 600 til 700 manns, þar af 70 sem eiga við spilafíkn að stríða. Þannig að þetta er umfangsmikið,“ segir Þórarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×