David Moyes, knattspyrnustjóri Real Sociedad á Spáni, segir að enska úrvalsdeildin hafi ekki verið slakari í langan tíma.
„Kannski höfum við talað úrvalsdeildina meira upp en góðu hófi gegnir. Tímabilið í ár er sennilega það slakasta í úrvalsdeildinni í mörg ár,“ sagði Moyes í samtali við BBC en umræðan um gæði ensku úrvalsdeildarinnar hefur komist í hámæli eftir ófarir ensku liðanna í Evrópu í vetur.
Moyes setur einnig spurningarmerki við óhóflega eyðslu ensku liðanna.
„Þessi mikla eyðsla í leikmannakaup ... kannski er þetta ekki rétta leiðin,“ sagði Moyes sem tók við Sociedad í nóvember á síðasta ári.
„Auðvitað eyða stærstu félögin á Spáni háum fjárhæðum en minni liðin geta það ekki.
„Atletico Madrid hefur verið í fjárhagsvandræðum síðustu ár en þeir ná samt árangri. Valencia og Villarreal hafa einnig komist langt í Evrópudeildinni.“
Moyes, sem var sagt upp störfum sem knattspyrnustjóri Manchester United fyrir tæpu ári síðan, segist hafa hafnað 3-4 tilboðum til að geta tekið við Sociedad sem situr í 12. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar.
Skotinn segir að fleiri breskir knattspyrnustjórar eigi að reyna fyrir sér erlendis.
„Það eru margir erlendir stjórar á Englandi en við það eru ekki nógu margir breskir stjórir sem starfa erlendis. Samt held ég að þeir standist samanburðinn við stjóra frá hvaða landi sem er.“
