Enski boltinn

Agüero ætlar að snúa aftur heim 2019

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Agüero hefur tvívegis orðið Englandsmeistari með Man City.
Agüero hefur tvívegis orðið Englandsmeistari með Man City. vísir/getty
Argentínski framherjinn Sergio Ag!ero hyggst snúa aftur til heimalandsins og ganga í raðir Independiente þegar samningur hans við Manchester City rennur út árið 2019.

Agüero, sem er 27 ára gamall, vill enda ferilinn hjá uppeldisfélaginu, þar sem hann hófst fyrir 12 árum síðan, en Agüero var aðeins 15 ára og 35 daga gamall þegar hann lék sinn fyrsta deildarleik með Independiente, gegn San Lorenzo 5. júlí 2003.

„Ég hef alltaf sagt að ég muni snúa aftur til Independiente og það ætla ég að gera,“ sagði Agüero sem er búinn að skora sjö mörk í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

„Ég fer til Independiente þegar samningur minn við City rennur út,“ bætti Argentínumaðurinn við en hann ætlar að koma aftur til uppeldisfélagsins meðan hann er enn í fullu fjöri.

„Ég vil ekki vera of gamall þegar ég kem aftur. Ef allt gengur samkvæmt óskum verð ég 31 árs þegar ég sný aftur til félagsins sem ég elska.“

Agüero skoraði 23 mörk í 54 deildarleikjum með Independiente áður en hann var seldur til Atlético Madrid 2006. Framherjinn lék fimm ár á Spáni og hjálpaði Atlético m.a. að vinna Evrópudeildina 2010.

City festi svo kaup á Agüero í lok júlí 2011 en hann hefur átt frábær ár hjá Manchester-liðinu og gert alls 116 mörk í 176 leikjum fyrir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×