Theodór Elmar Bjarnason var í byrjunarliði AGF sem vann góðan 2-1 sigur á Midtjylland í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Sigurinn var kærkominn en Elmar og félagar höfðu ekki unnið deildarleik síðan 18. október.
Aleksandar Cavric kom AGF yfir strax á 3. mínútu en Mikkel Duelund jafnaði metin fyrir dönsku meistarana tveimur mínútum fyrir hálfleik.
Staðan var 1-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja og fram á 70. mínútu þegar Kim Aabech skoraði sigurmark AGF úr vítaspyrnu.
Elmar og félagar eru í 9. sæti deildarinnar með 21 stig.
