Innlent

40 ár frá upphafi Kröfluelda

Kristján Már Unnarsson skrifar

Fjörutíu ár eru í dag frá upphafi Kröfluelda, hrinu eldgosa sem stóð yfir í níu ár norðan við byggðina í Mývatnssveit. Þarna gerðist það í fyrsta sinn að íslenskir vísindamenn sáu með nokkrum fyrirvara að eldgos væri í aðsigi. 

Fyrsta Kröflugosið hófst við Leirhnjúk fjórum dögum fyrir jól  árið 1975, laust fyrir hádegi þann 20. desember. Þetta var hins vegar lítið gos, stóð aðeins yfir í nokkrar klukkustundir, og er því lítið til af myndum af þessum upphafsatburði Kröfluelda.

Eiríkur Jónsson verkfræðingur náði þó svarthvítum ljósmyndum í flugi á vegum Kröflunefndar en fyrstu ljósmyndina af gosinu tók Helgi Jósefsson úr flugvél á leið frá Vopnafirði til Akureyrar og birtist hún í Tímanum þremur dögum síðar. 

Það voru hins vegar íbúar Kópaskers og nágrennis sem fengu að kenna harkalegast á upphafi umbrotanna, með Kópaskerskjálftanum, sem reið yfir þremur vikum eftir fyrsta Kröflugosið, þann 13. janúar árið 1976. 

Eldgosin urðu alls níu talsins á árunum frá 1975 til 1984. Fyrsta gossprungan opnaðist aðeins um þrjá kílómetra frá stöðvarhúsi Kröfluvirkjunar, sem þá var í smíðum. Jarðgufuöflun fór úr skorðum og urðu miklar deilur um virkjunina enda gekk illa að koma raforkuframleiðslunni af stað. 

Í þættinum "Um land allt" á Stöð 2 fyrr á árinu voru þessir atburðir rifjaðir upp með heimamönnum en þáttinn má sjá hér fyrir neðan og á sjónvarpsvef Vísis.


Tengdar fréttir

Fágætar myndir af fyrsta Kröflugosinu

Fyrir fjörutíu árum náði verkfræðingur á vegum Kröflunefndar fágætum ljósmyndum af upphafi Kröfluelda, sem teknar voru í fyrsta fluginu yfir gosstöðvarnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.