Enski boltinn

Arsenal án Alexis Sánchez yfir jól og áramót

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexis Sánchez.
Alexis Sánchez. Vísir/Getty
Arsenal saknaði ekki Alexis Sánchez í 2-1 sigri á Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í gær og liðið verður áfram án Sílemannsins frábæra í næstu leikjum sínum.

Meiðsli Alexis Sánchez tóku sig upp á æfingu hjá Arsenal og mun hann því missa af öllum leikjum liðsins um jóla og áramótin.

„Ég býst við því að hann komi til baka 10. janúar. Ekki reikna með að sjá hann spila yfir hátíðirnar. Planið var að hann yrði á bekknum á móti City en hann var með verki og við ákváðum því að taka enga áhættu," sagði Arsène Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal.

Sjá einnig:Arsenal vann Man. City og verður í öðru sæti yfir jólin

Alexis Sánchez hefur þegar misst af þremur leikjum en þeir hafa allir unnist (á móti Sunderland, Aston Villa og Manchester City) og það sem meira er, Arsenal hefur skorað tvö mörk eða meira í þeim öllum. Sánchez missti líka af lokaleik Arsenal í riðlakeppninni þar sem liðið vann 3-0 útisigur á gríska liðinu Olympiacos.

Alexis Sánchez hefur skorað 6 mörk og gefið 2 stoðsendingar í 14 leikjum í ensku úrvalsdeildinni en öll sex mörkin hans komu í þremur leikjum í röð frá 26. september til 17. október.

Arsenal mætir Southampton á útivelli á öðrum degi jóla en tekur síðan á móti Bournemouth tveimur dögum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×