Enski boltinn

Sautján lið í deildinni hafa náð fleiri skotum en Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney og Louis van Gaal.
Wayne Rooney og Louis van Gaal. Vísir/Getty
Sky Sports fór yfir tölfræði Manchester United í fyrstu sautján leikjunum í ensku úrvalsdeildinni en tap á móti Norwich á heimavelli um helgina þýðir að United er búið að spila sex leiki í röð án þess að vinna.

Sóknarleikur Manchester United hefur verið mikið gagnrýndur á þessu tímabili og þótt að Louis van Gaal verji hann og segi að liði sæki alltaf sýnir tölfræðin það þó svart á hvítu að það hefur ekki verið mikið United-klassi yfir sóknarleiknum á leiktíðinni.

Manchester United hefur skorað 22 mörk í fyrstu 17 umferðunum og er í 8. sæti á þeim lista. Liðið hefur skorað fimmtán mörkum minna en topplið Leicester City og tíu mörkum minna en nágrannar þeirra í Manchester City.

Louis van Gaal leggur upp með það að lið hans sé með boltann og hann getur því glaðst yfir því að liðið er í efsta sæti þegar kemur að því að halda boltanum í heimaleikjum sínum. United-liðið hefur verið með boltann í 62,3 prósent sinna leikja á Old Trafford.

United er vissulega mikið með boltann en það er ekki að skila sér í skotum á markið. United-liðið hefur "aðeins" reynt 131 skot í þessum 17 leikjum sem þýðir að 17 lið í deildinni hafa átt fleiri skot en lærisveinar Van Gaal.

Ekki gengur mikið betur að skapa færi því þrettán lið í deildinni hafa klúðrað fleiri færum en Manchester United í fyrstu sautján umferðunum. Arsenal hefur klikkað á flestum góðum færum eða 32 eða 19 fleiri lið Manchester United.

Það er því ekki vandamálið að United-liðið sé að klikka á færum því leikmenn liðsins gengur ill að koma sér í færin. Manchester United er í hópi þriggja neðstu liðanna á listanum yfir sköpuð færi og þar er Arsenal-liðið langefst.

Það er hægt að sjá þessa athyglisverðu samantekt Sky Sports hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×