Fótbolti

Búlgörsku meistararnir hóta að hætta í deildinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ludogorets stillir sér upp fyrir leik gegn Real Madrid í Meistaradeildinni í fyrra.
Ludogorets stillir sér upp fyrir leik gegn Real Madrid í Meistaradeildinni í fyrra. vísir/afp
Búlgarska meistaraliðið Ludogorets hótar því að hætta í búlgörsku úrvalsdeildinni, en forráðamenn liðsins halda því fram að dómarar deildarinnar séu að hjálpa Levski Sofia í átt að meistaratitlinum.

Levski var að tapa, 1-0, gegn Litex Lovech á heimavelli síðasta laugardag en leikurinn var blásinn af þegar leikmenn Litex gengu af velli eftir að dæmt var á þá annað víti og rautt spjald.

Til stendur að Levski vinni leikinn, 3-0, sem þýðir að liðið verður jafnt Ludogorets á toppnum í búlgörsku úrvalsdeildinni.

„Við hættum líklega í deildinni ef svona fordæmi sem hjálpa Levski halda áfram,“ segir Kiril Domuschiev, eigandi Ludogorets, en það er BBC sem greinir frá.

Domuschiev tók yfir Ludogorets árið 2010 og liðið vann B-deildina sama ár. Liðið vann úrvalsdeildina á sínu fyrsta ári þar og er búið að vinna hana undanfarin fjögur ár.

„Af hverju ættum við að eyða peningunum okkar þegar lið sem hafa ekki gæði til að vinna titilinn beita þessari aðferð,“ segir eigandinn.

Stoycho Stoilov, yfirmaður knattspyrnumála hjá Ludogorets, var jafn ósáttur og eigandinn. „Það var gríðarlegur munur á ákvörðun dómarans. Ég hef aldrei séð svona í fótboltanum. Þetta er farsi og móðgun við stuðningsmenn Litex og áhugamenn um fótbolta,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×