Erlent

Geimfararnir komnir um borð í ISS

Bjarki Ármannsson skrifar
Þeir Malentsjenkó, Kopra og Peake senda skilaboð til fjölskyldna sinna eftir að þeir komust um borð.
Þeir Malentsjenkó, Kopra og Peake senda skilaboð til fjölskyldna sinna eftir að þeir komust um borð.
Geimfararnir Tim Kopra frá NASA, Tim Peake frá ESA (Evrópsku geimferðastofnuninni) og Júrí Malentsjenko frá Roscosmos eru komnir um borð í Alþjóðageimstöðina (ISS) þar sem þeir munu dvelja næsta hálfa árið. Malentsjenkó þurfi fyrr í kvöld að stýra geimflaug þeirra handvirkt að geimstöðinni vegna tækniörðugleika.

Þeir félagar munu leysa Kjell Lindgren frá NASA, Oleg Kononenkoó frá Roscosmos og Kimiya Yui frá Geimferðastofnun Japan, sem komu til jarðarinnar fyrir helgi af hólmi. Þeir Kopra og Malentsjenkó hafa báðir áður unnið í geimstöðinni, en þetta er í fyrsta sinn sem Tim Peake fer til stöðvarinnar og er hann jafnframt fyrsti Bretinn sem starfar þar.

Geimflauginni var skotið frá Kasakstan í morgun, frá sama stað og Júrí Gagarín fór í fyrstu mönnuðu geimferðina árið 1961.

Ferðin til Alþjóðageimstöðvarinnar tekur um sex klukkustundir. Þeir Kopra, Peake og Malentsjenkó munu vera í geimstöðinni í sex mánuði, en nú þegar eru þeir Sergeij Volkov, Mikhaíl Korníjenkó og Scott Kelly um borð. Þeir tveir síðastnefndu hafa verið í geimstöðinni frá því í mars og munu vera í geimnum í heilt ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×