Bíó og sjónvarp

Gagnrýnendur taka Star Wars fagnandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Sjöunda Star Wars myndin The Force Awakens var frumsýnd í gær og tóku gagnrýnendur henni vel. Eftirvæntingin eftir myndinni hefur verið gífurleg sem og væntingarnar. Þeir sem skrifað hafa um myndina eru sammála um að leikstjóranum JJAbrams takist að halda í það sem heillaði aðdáendur gömlu myndanna og einnig að heilla nýja aðdáendur.

Á síðunni Metacritic, þar sem farið er yfir skrif um myndina, er hún með 83 af 100 í meðaleinkunn frá gagnrýnendum. Þar kemur fram að af 37 greinum sem hafi verið skrifaðar eru 35 jákvæðar í garð myndarinnar og tvær virðast skrifaðar með blendnum tilfinningum.

Þá gefa tíu gagnrýnendur myndinni fullt hús stiga og þar á meðal eru gagnrýnendur TelegraphUSA Today og Wall Street Journal.

„Gömlu Star Wars galdrarnir eru komnir aftur,“ skrifar Brian Truitt, hjá USA Today. Peter Bradshaw hjá Guardian telur kvikmyndina vera frábæra jólagjöf og segir að hann hafi ekki áttað sig á því hve mikið hann saknaði Star Wars heimsins fyrr en hann sá myndina.

Gagnrýnandi Verge segir Abrams hafa, að mestu leyti, bætt skaðann sem gerður var á Star Wars heiminum með myndum eitt, tvö og þrjú.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×