Fótbolti

Alves: Hata það sem umvefur knattspyrnuna

Vísir/Getty
Dani Alves, leikmaður Barcelona, segist ekki njóta sín í hinum hefðbundna knattspyrnuheimi þrátt fyrir að hafa notið mikillar velgengni á ferlinum.

„Ég hata allt það sem umvefur knattspyrnuna,“ sagði hann í viðtali við O'Globo í heimalandinu. „Ég bý í þessum heimi en tilheyri honum ekki.“

„Það eru lygar og aðrir hagsmunir í gangi. Ég hef galla og leyni því ekki. En ég held stundum að fólk sé ekki reiðubúið að hlusta og ræða sannleikann.“

Hann segist vera ólíkur flestum öðrum en reyni að njóta lífsins eins og hann getur. „Ég er klikkaður en á jákvæðan hátt. Ég horfi nánast aldrei á sjónvarp því það er svo mikið af slæmum fréttum. Ég styð lífið.“

„Ég vil vera ákveðin týpa, til dæmis eins og ég klæði mig. Það er leiðinlegt að vera venjulegur. Félagið gefur okkur bíl og minn er alltaf með skrautlegustu litina. Líf mitt er frjálst.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×