Fótbolti

Kristinn: Mikilvægast að fá að spila

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristinn Steindórsson samdi í dag við sænska úrvalsdeildarfélagið Hammarby til næstu þriggja ára og hann segist sáttur við ná niðurstöðu.

Kristinn, sem er uppalinn Bliki, var á mála hjá Halmstad í Svíþjóð áður en hann gekk í raðir Columbus Crew fyrir ári síðan.

Sjá einnig: Kristinn samdi við Sundsvall til þriggja ára

„Það er fínt að þetta sé klappað og klárt,“ sagði Kristinn í samtali við Vísi í dag. „Þetta hefur staðið til í nokkurn tíma en það er gott að ég get byrjað að einbeita mér að koma mér af stað hjá nýju liði.“

Hann segist ánægður með árið sitt í Bandaríkjunum að langflestu leyti. „Það eina sem ég var ekki sáttur við var hversu lítið ég fékk að spila. En allt hjá félaginu var mjög flott og ég lærði mikið af því að vera þarna,“ segir hann.

„Mér leið vel í Bandaríkjunum og liðið átti flott tímabil. En það sem mestu máli skiptir er að spila og því er ég ánægður með að vera kominn með nýtt lið.“

Hann segir að það hafi verið öðruvísi upplifun að spila í bandarísku MLS-deildinni. „Það er ekkert grín að ferðast í gegnum mörg tímabelti á milli leikja og spila í mismunandi loftslagi og annað slíkt. Menningin er líka önnur í kringum deildina. Deildin sjálf ræður miklu og leikmenn eru oft að berjast fyrir ákveðnum réttindum sem menn ganga að vísu í Evrópu.“

Kristinn segist ekki þurfa að sanna sig í Svíþjóð heldur vilji hann minna á sig. „Sérstaklega eftir ár þar sem ég hef lítið fengið að spila. En fyrst og fremst ætla ég að fara út til að standa mig vel, skora mörk og leggja upp og hjálpa liðinu að ná markmiðum sínum.“

Sundsvall endaði í tólfta sæti sænsku deildarinnar í ár en Rúnar Már Sigurjónsson er á mála hjá liðinu. Jón Guðni Fjóluson hefur spilað með Sundsvall undanfarin ár en samdi fyrir skömmu við Norrköping.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×