Fótbolti

Ísland áfram í nítjánda sæti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Dagný Brynjarsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Anton
Ísland er sem fyrr í nítjánda sæti á styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins en nýr listi var gefinn út í dag.

Ísland hefur verið á bilinu 15.-21. sæti síðan að FIFA hóf að gefa út styrkleikalista fyrir kvennalandslið heimsins árið 2003.

Síðasti listi var gefinn út í september en síðan þá hefur Ísland spilað tvo leiki - gegn Makedóníu og Slóveníu ytra í undankeppni EM 2017. Stelpurnar unnu þá samanlagt, 10-0.

Ísland er tíunda efsta Evrópuþjóðin á listanum en Skotland, sem er með Íslandi í riðli í undankeppni EM, er skammt undan í 21. sæti.

Skotar eru með fullt hús stiga eftir fjóra fyrstu leiki sína í riðlinum og Ísland eftir þrjá leiki. Liðin mætast ytra þann 3. júní.

Engin breyting er á efstu tíu liðum listans en heimsmeistarar Bandaríkjanna tróna á toppnum. Þýskaland, Frakkland, Japan og England koma svo næst.

Norðurlandaþjóðirnar Svíþjóð (8. sæti), Noregur (10. sæti) og Danmörk (15. sæti) eru allar fyrir ofan Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×