Enski boltinn

Við leikmenn verðum að redda okkur úr þessu klandri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi sér fram á betri tíma hjá Swansea eftir slæmar vikur nú í haust. Swansea mætir West Ham nú um helgina.
Gylfi sér fram á betri tíma hjá Swansea eftir slæmar vikur nú í haust. Swansea mætir West Ham nú um helgina. Fréttablaðið/getty
Síðustu dagar hafa verið viðburðaríkir hjá velska liðinu Swansea, sem berst nú fyrir lífi sínu í ensku úrvalsdeildinni. Liðið er í sautjánda sæti deildarinnar, jafnt Norwich sem er í fallsæti á verri markatölu, og er nýbúið að reka stjórann Garry Monk.

Landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson er í stóru hlutverki hjá Swansea og þekkir vel til Monks, enda lék hann með honum þegar hann var fyrst hjá Swansea sem lánsmaður frá Hoffenheim árið 2012. Það var svo Monk sem fékk hann aftur til félagsins þegar Swansea keypti hann frá Tottenham í fyrrasumar.

„Eins og stjórnarformaðurinn [Huw Jenkins] sagði sjálfur þá var þetta ekki auðvelt að þurfa að reka mann sem hafði verið jafn lengi hjá félaginu, bæði sem leikmaður og þjálfari. Swansea náði besta árangri sínum frá upphafi undir hans stjórn í vor og það tók persónulega á fyrir hann að taka þessa ákvörðun. En svona er þetta bara í fótboltanum og ég skil ákvörðunina,“ sagði Gylfi í samtali við Fréttablaðið í gær. Hann var þá í sjúkraþjálfun en segir þó að hann sé í afar góðu standi, líkt og undanfarið.

Þjálfaraleitin truflar ekki

Þjálfaraleit Swansea stendur enn yfir en fjölmargir hafa verið orðaðir við starfið í enskum fjölmiðlum. Argentínumaðurinn Marcelo Bielsa telst hvað líklegastur samkvæmt orðinu á götunni en meðal annarra sem hafa verið nefndir eru Ryan Giggs, Dennis Bergkamp og Gus Poyet. En Gylfi segir að þessi umræða hafi engin áhrif á leikmenn.

„Ég get bara svarað fyrir sjálfan mig en ég er viss um að aðrir leikmenn eru sama sinnis. Við erum einbeittir að því að undirbúa okkur fyrir mikilvægan leik gegn West Ham á sunnudag og getum ekki leyft okkur að hugsa um neitt annað. Þeir þjálfarar sem eru með liðið núna eru mjög góðir og mér líst mjög vel á það sem þeir hafa fram að færa,“ segir Gylfi en Alan Curtis, fyrrverandi aðstoðarmaður Monks, stýrði Swansea í 2-1 tapleiknum gegn Manchester City um helgina og verður áfram við stjórnvölinn um helgina.

Gylfi fagnar á hnjánum.vísir/getty
Besti leikur okkar þrátt fyrir tap

„Þrátt fyrir að við töpuðum leiknum gegn City finnst mér að það hafi verið besta frammistaðan okkar í vetur. Okkur tókst að spila knattspyrnu sem Swansea á að spila enda höfðum við ekki verið sjálfum okkur líkir í mörgum leikjum í haust. Ég held að persónulega hafi ég fengið fleiri færi í þessum leik en í öllum öðrum leikjum á tímabilinu til þessa,“ segir Gylfi.

Swansea fór vel af stað í haust. Tapaði ekki fyrstu fjórum leikjum sínum þar sem liðið vann meðal annars Manchester United og gerði jafntefli við Chelsea. En svo kom bara einn sigur í næstu ellefu leikjum áður en Monk var látinn taka pokann sinn.

Gylfi segir erfitt að benda á eina sérstaka ástæðu fyrir því að liðið tók svo skarpa dýfu. „Kannski vorum við varnarsinnaðir ef eitthvað er. Við höfum alltaf lagt áherslu á að einbeita okkur fyrst og fremst að okkar leikstíl og hvernig við viljum spila.

Swansea hefur ávallt reynt að spila vel, vera með mikið af sendingum og láta boltann ganga hratt á milli manna. En eins og flestir sáu þá gekk okkur illa að ná því fram og því náðum við að skapa lítið af færum. Það er einfaldlega ekki líkt Swansea.“

Jákvætt andrúmsloft núna

Gylfi vildi lítið ræða um mögulega arftaka Monks og sagðist ekki vita meira um þjálfaraleitina en kemur fram í fjölmiðlum, og þar sé lítið af haldbærum upplýsingum um gang mála.

„Það sem skiptir máli núna er að við erum með þjálfara sem vilja koma sínum áherslum að. Það er jákvætt andrúmsloft í kringum liðið og vonandi mun það koma til með að aukast. Það ætti að verða auðvelt ef við vinnum um helgina,“ segir hann.

Engin eftirmál vegna viðtalsins

Gylfi komst í sviðsljós fjölmiðla um miðjan síðasta mánuð er hann sagði í viðtali við Fótbolta.net að Garry Monk hefði ekki sent honum hamingjuóskir með SMS-skilaboðum þegar Ísland tryggði sér sæti á EM. Gylfi sagði síðar að hann hefði ekki meint neitt slæmt með ummælunum og að Monk hafi vitanlega óskað öllum sem komust á EM til hamingju með árangurinn.

„Það voru engin eftirmál af þessu og sannarlega ekki af minni hálfu. Þetta var ekkert rætt eftir að ég kom aftur út,“ sagði Gylfi en Monk var spurður um ummæli Gylfa á blaðamannafundi þar sem sá síðarnefndi gantaðist með að næst ætti hann ef til vill að gefa Gylfa köku.

Gylfi segir að málið hafi komið upp á viðkvæmum tímapunkti fyrir Monk. „Fjölmiðlar skrifa um allt sem hægt er að skrifa um. Liðinu gekk ekki vel og það var mikil pressa á honum. En þetta varð aldrei að neinu alvarlegu máli okkar á milli,“ segir Gylfi sem segist ekki íhuga það í eitt augnablik að skipta um félag.

„Alls ekki. Það er ekkert sem ég vil frekar gera en að koma okkur úr þeim vandræðum sem við erum sjálfir búnir að koma okkur í. Swansea á ekki heima í B-deildinni. Það er undir okkur leikmönnum komið að redda okkur úr þessu klandri sem við erum komnir í.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×