Erlent

Stöð 2 á COP21: Hlutverk Íslands mikilvægt í orkubyltingunni

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson er staddur í París.
Ólafur Ragnar Grímsson er staddur í París. Vísir/EPA
Í París freista samninganefndir og ráðherrar 195 þjóða að komast að samkomulagi um hvernig megi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og halda hlýnun Jarðar á þessari öld innan við 2°C. Hlýnunin nemur þegar 1.0°C til 1.5°C og flestir eru sammála um að landsframlög ríkjanna (loforð þeirra og markmið í baráttunni gegn loftslagsbreytingum) eru alls ekki nógu metnaðarfull til að ná hinu pólitíska markmiði nýs loftslagssamnings um tveggja gráðu hlýnun.

Til að stemma stigu við frekari loftslagsbreytingum er þörf á orkubyltingu þjóðanna. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur fjallað um endurnýjanlega orku og sjálfbærni á loftslagsráðstefnunni í París. Hann segir framlag Íslands í þessari byltingu vera verulegt.

„Saga Íslands í orkumálum er vitnisburður um að hægt er að snúa áhrifum loftslagsbreytinga við með allsherjar breytingum í átt að hreinni orku,“ segir Ólafur Ragnar.

Nánar verður rætt við forseta í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld en þar verður einnig rætt við Gunnar Braga Sveinsson, utanríkisráðherra, um gang viðræðna. Gunnar Bragi segir að endanlegur samningur muni hafa litla sem enga lagalega bindingu.


Tengdar fréttir

Pólitíska vinnan er eftir á Loftslagsráðstefnunni

Ráðamenn 195 þjóða hafa tekið við uppkasti að loftslagssamningi í París og munu næstu daga reyna að ná málamiðlun um einstök atriði hans. Formaður samninganefndar kveðst vera bjartsýnn. Efasemdaraddir eru þó háværar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×