Innlent

Kúvending í afstöðu ríkisins

Sveinn Arnarsson skrifar
Minnihlutinn í borgarráði er ánægður með afstöðu Ólafar Nordal til lokunar flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli. Meirihlutaflokkarnir telja ekki staðið við samninga.
Minnihlutinn í borgarráði er ánægður með afstöðu Ólafar Nordal til lokunar flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli. Meirihlutaflokkarnir telja ekki staðið við samninga. vísir/gva
Ólöf Nordal, ráðherra samgöngumála, hefur neitað að verða við kröfu Reykjavíkurborgar um að fyrirskipa lokun flugbrautar 06/24 á Reykjavíkurflugvelli. Bréf þess efnis var lagt fyrir borgarráð í gær. Þar er rökum borgaryfirvalda mótmælt. Forsvarsmenn Reykjavíkurborgar ætla sér að fara með málið fyrir dómstóla.

„Það er auðvitað leiðinlegt að þurfa að sækja rétt sinn fyrir dómstólum en við sjáum okkur knúin til að gera það í þessu efni. Til eru tveir samningar um málið sem ráðherrar samgöngumála hafa skrifað undir þar sem fallist er á lokun brautarinnar og við það verður að standa,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Löng barátta hefur staðið um framtíð flugvallar í Vatnsmýri og nú síðustu ár um framtíð þriðju og minnstu flugbrautarinnar á vellinum, flugbrautar 06/24, sem aðeins er notuð þegar ekki er hægt að lenda á hinum brautunum tveimur.

Þegar Rögnunefndin svokallaða var sett á laggirnar 25. október árið 2013 skrifuðu þáverandi innanríkisráðherra og borgarstjóri undir samning. Í honum stóð: „Aðilar [ríki og borg] ljúki vinnu við endurskoðun á deiliskipulagi fyrir flugvallarsvæðið og að tilkynnt verði um lokun NA/SV-brautarinnar samhliða auglýsingu þess, síðar á þessu ári. Samtímis skal endurskoða núgildandi skipulagsreglur fyrir Reykjavíkurflugvöll til samræmis.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjórivísir/stefán
Nú kveður við nýjan tón í ráðuneyti samgöngumála. Í bréfinu sem Ólöf Nordal sendi Reykjavíkurborg segir að ákvörðun um lokun flugbrautarinnar verði ekki tekin án fullvissu um að lokunin komi ekki niður á öryggi flugvallarins og að fullnægjandi þjónustustigi fyrir alla landsmenn verði viðhaldið.

„Rökum Reykjavíkurborgar fyrir því að innanríkisráðherra sé skylt að tilkynna um lokun NA/SV flugbrautarinnar og gera breytingar á skipulagsreglum sem ráðuneytið setur er mótmælt. Engar réttarlegar skuldbindingar þessa efnis liggja fyrir. Þá er rökum fyrir mögulegri bótaskyldu ríkisins vegna fyrirhugaðra byggingaráforma á svonefndu Hlíðarendasvæði einnig mótmælt.

Reykjavíkurborg er fullkunnugt um að þær framkvæmdir og ráðstafanir sem leyfðar hafa verið á Hlíðarendasvæðinu eru undanfari byggingaframkvæmda sem ekki getur orðið af að óbreyttum skipulagsreglum. Á þetta hefur ráðuneytið bent. Útgáfa leyfa til uppbyggingar á Hlíðarendasvæðinu er því alfarið á ábyrgð og áhættu Reykjavíkurborgar,“ segir í bréfi Ólafar.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra.vísir/ernir
Borgarstjóri undrast þessi vinnubrögð innanríkisráðherra. „Það er ekki í takt við góða stjórnsýslu að fara ekki eftir þeim samningum sem hafa verið gerðir. Það er einnig erfitt ef það er háð duttlungum ráðherra í hvert skipti hvort menn fara eftir því sem hefur verið áður samið um,“ segir Dagur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×