Fótbolti

Ancelotti: Getum ekki látið eins og ekkert gerðist

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlo Ancelotti, fyrrum stjóri PSG.
Carlo Ancelotti, fyrrum stjóri PSG. Vísir/Getty
Carlo Ancelotti segir að það sé mikilvægt að leikmenn hjá franska stórliðinu PSG haldi ekki bara áfram eins og ekkert hafi í skorist og hunsi mögulegar afleiðingar hryðjuverkanna í París fyrr í mánuðinum.

Ancelotti er ítalskur knattspyrnustjóri sem þjálfaði PSG frá 2011 til 2013. Síðast var hann á mála hjá Real Madrid en er nú án félags. Hann hefur áður þjálfað Juventus, AC Milan og Chelsea.

„Ég, eins og allir aðrir, brást við hryðjuverkunum með því að vera óttasleginn og áhyggjufullur,“ sagði Ancelotti í viðtali við Goal.com. „Svona atburðir breyta því miður lífi allra.

„Við verðum að hafa hugrekki til að halda áfram að lifa lífi okkar án þess að búa við skert frelsi eða minni virðingu en áður. Þetta verður líka að gerast hjá PSG þó svo að það sé erfiðara þar en annars staðar.“

„Það besta sem hægt er að gera er að forðast að láta eins og ekkert hafi gerst. Þessir atburðir áttu sér stað og höfðu áhrif á alla. Það er mikilvægt að ræða hlutina og tryggja að leikmenn geti syrgt og tjáð tilfinningar sínar.“

„Það er enginn vafi á því að svona lagið muni hafa áhrif á frammistöðu leikmanna,“ sagði Ancelotti.

PSG vann um helgina 2-1 sigur á Lorient en liðið mætir Malmö í Svíþjóð í Meistaradeild Evrópu í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×