Innlent

Skemmdarverk unnin á menningarmiðstöðinni

Jakob Bjarnar skrifar
Höskuldur Kári Schram fréttamaður skoðar vegsummerki á Ýmishúsinu.
Höskuldur Kári Schram fréttamaður skoðar vegsummerki á Ýmishúsinu. visir/gva
Skemmdarverk voru unnin á Ýmishúsinu í gærkvöldi. Þegar Ahmad Seddeeq og hans fólk komu að húsinu í morgun gat ekki farið fram hjá þeim að málað hafði verið merki á veggi, glugga og þak hússins sem hýsir starfsemi Menningarmiðstöðvar múslima.

Að sögn Seddeeq imans menningarsetursins var málið umsvifalaust kært til lögreglu og mætti hún til að skoða spjöllin. Seddeeq tengir atvikið við vaxandi hatursáróður gegn múslimum sem hann segist nú finna fyrir:

„Ég hef fundið fyrir auknum fordómum í garð múslima í kjölfar árasanna í París,“ segir Seddeeq og telur hann líklegra að um sé að ræða hatursáróður fremur en að hér hafi verið um hefðbundin skemmdarverk veggjakrotara.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var ekki búið að færa atvikið á málaskrá nú í morgun. Ljósmyndari Vísis, Gunnar V. Andrésson fór einnig á vettvang og tók myndir af skemmdarverkunum.

Eftir því sem næst verður komist er merkið sem málað var á veggi og þak hússins „Hið alsjáandi auga“. Merking þess er margþætt en í poppmenningu hefur merkið gjarnan verið tengt við Illuminati eða Þá hina upplýstu.

Samkvæmt Wikipedia er táknið yfirleitt notað sem merki um tilvist Guðs sem fylgist með gjörðum mannkynsins og þá aðallega inni í þríhyrningi sem talið er að tákni heilaga þrenningu.

Stöð 2 fjallar ítarlega um málið í kvöldfréttum sínum í kvöld og verður þar meðal annars rætt við Ahmad Seddeeq iman Menningarsetursins.visir/gva



Fleiri fréttir

Sjá meira


×