Fótbolti

Platini verður ekki í framboði til forseta FIFA | Fimm koma til greina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michel Platini, forseti UEFA, verður ekki næsti forseti FIFA.
Michel Platini, forseti UEFA, verður ekki næsti forseti FIFA. Vísir/Getty
Michel Platini, forseti UEFA, er ekki meðal þeirra fimm sem bjóða sig fram til forseta Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, en sambandið gaf út framboðslistann í morgun.

Michel Platini ætlaði í framboð en nú er ljóst að ekkert verður af því. Frakkinn er flæktur í spillingamál innan FIFA eins og fráfarandi forseti Sepp Blatter.

Fulltrúar Evrópu í formannskjörinu eru þeir Gianni Infantino og Jéróme Champagne. Infantino hefur verið framkvæmdastjóri UEFA í forsetatíð Michel Platini. Jéróme Champagne er Frakki sem hefur verið verið í áhrifastöðu innan FIFA.

Michel Platini var settur í 90 daga bann frá knattspyrnumálum eftir að Siðanefnd sambandsins leysti hann tímabundið frá störfum. Hann er undir rannsókn fyrir að hafa tekið við greiðslu frá Sepp Blatter.

Einn af frambjóðendunum fimm er sá maður sem Sepp Blatter vann í síðustu forsetakosningum FIFA en það er Prins Ali Al Hussein. Hinir tveir eru síðan Tokyo Sexwale og Sheikh Salman Bin Ebrahim Al Khalifa.

Tokyo Sexwale er suður-afrísku viðkskiptamaður en Sheikh Salman Bin Ebrahim Al Khalifa er forseti knattspyrnusambands Asíu.

Musa Bility, forseti knattspyrnusambands Líberíu, fær ekki að bjóða sig fram þar sem að hann stóðst ekki heiðarleikapróf.

Sepp Blatter var kosinn forseti FIFA í vor en tilkynnti fljótlega eftir kjörið að hann myndi hætta sem forseti og efna til nýrra kosninga.  Þær kosningar fara síðan fram í febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×