Lífið

Contouring krísa lætur á sér kræla

Guðrún Ansnes skrifar
„Þetta hefur sannarlega verið mikið hitamál upp á síðkastið, enda myndi ég segja að þetta trend væri að ná hámarki akkúrat núna,“ segir Heiðdís Austfjörð Óladóttir förðunarfræðingur aðspurð um svokallað „contouring“, eða öfgafulla andlitsskyggingu, sem tröllríður förðunarheimum um þessar mundir og hefur gert um þó nokkurt skeið.

Nú er reyndar svo komið, líkt og með öll góð trend, að fólk skiptist í fylkingar. „Countour-ara“ og þá sem nánast hata fyrirbærið, sem felur í sér svokallað „baking“ og „highlight“ líka. Sumir ganga jafnvel svo langt að segja að konur á aldursbilinu sextán ára og upp í tuttugu og sex ára líti nákvæmlega eins út, fyrir tilstilli notkunar á aðferðinni. Mikið hefur mætt á samfélagsmiðla hópnum Beauty tips undanfarið þar sem tekist er á um hvort aðferðin sé yfir gagnrýni hafin. Sitt sýnist hverjum. En um hvað snýst málið? 





Heiðdís Austfjörð Óladóttir förðunarfræðingur hefur ansi margt til málanna að leggja. Hún segir þó ekkert bannað að mála sig mikið og hafa gaman. Þvert á móti.
„Þetta er búið að gerast ansi hratt, og það má alveg segja að stelpur í dag séu að mála sig meira en áður hefur tíðkast. Það er náttúrulega vegna þess að það er svo mikið í boði, allt fullt af framboði fyrirmynda á Insta­gram, YouTube og nánast hvar sem er,“ útskýrir Heiðdís.

Hún segir trendið líkast til eiga rætur sínar að rekja til Kardashian-systra. „Þær byrjuðu svolítið með þessi indíánastrik í andlitinu, sem svo eru milduð út, og þannig notuð til að móta andlitin. En á undan þeim voru reyndar dragdrottningarnar, sem hafa lengi notað þessa tækni til að forma gróf andlitin. Það má sannarlega kalla þetta listform og þaðan er þetta komið.“





Drottningin sjálf, sem innleiddi indíána línurnar svokölluðu.
Segir Heiðdís gagnrýnina fyllilega eiga rétt á sér, en margar hverjar hafa farið fullgeyst í að nýta sér þessa ágætu tækni. „Ég myndi segja að konur gætu tónað þetta niður um sjötíu prósent. Ég skil fullkomlega að þessi tækni sé notuð, það getur verið stórskemmtilegt, en þetta er gríðarlega vandmeðfarið og maður getur ekki sett bara eitthvað saman. Það er auðvelt að enda eins og endurskinsmerki í framan ef maður veit ekki hvernig vöru maður er að nota. Þetta sést vel þegar stelpurnar smella af myndum þar sem notað er flass,“ bendir hún á og bætir við

„Raunveruleiki okkar og Kardashian-systra er töluvert ólíkur þar sem þær eru með óteljandi kastara í andlitinu endalaust og þannig getur andlitið orðið flatt ef ekki er skyggt, líkt og í leikhúsunum.“ 

Nicki Minaj beitir bellibrögðunum ansi oft
En hvað þýða þessi hugtök sem svo iðulega er slengt fram svo hinn óbreytti puntari veit hvorki upp né niður? Athugið að skýringarnar eru algjörlega strípaðar og eins einfaldar og hægt er. 

Contouring?

Tiltekin aðferð þar sem dökkir litir eru notaðir til að skyggja svæði, svo sem í andlitinu og þá undir kinnbein, niður nefið, ennið og hökuna. Þetta er gert til að skerpa á línunum og getur oft endurmótað andlitið. Þessu er svo blandað saman eftir kúnstarinnar reglum, þar sem mörgum lögum farða og púðra er beitt til að ná gallalausri áferð.





Baking?

Að baka á sér andlitið hefur notið töluverðra vinsælda og fer Kim Kardashian þar fremst í flokki. Samkvæmt hennar bókum er best að láta púðrið í stórum stíl undir augun og þar er það látið bíða, allt upp í hálftíma, áður en dustað er af. Og svo blandað á fullu, eða „þar til hendurnar detta af,“ samkvæmt förðunarfræðingi skvísunnar, Mario Dedivanovic.



Highlight?

Aðferð til að ljóma á andlitið og sett ofan á skyggingarnar sem contouring felur í sér. Nema hvað, hér má sannarlega fara offorsi og auðvelt að líta út fyrir að vera bulland sveittur ef illa gengur að halda aftur af sér.


Tengdar fréttir

Kim Kardashian nakin og kasólétt

Kim Kardashian birtir nokkuð djarfa mynd af sér á Facebook þar sem hún situr fyrir nakin og má vel sjá að hún er ólétt.

Bestu og verstu förðunartrend sögunnar

Breski förðunarfræðingurinn Lisa Eldridge heldur úti sinni eigin rás á Youtube og þar fræðir hún fólk oft um það hvernig sé best að farða sig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×