Fótbolti

Meira en ellefu ár á milli þrennanna hans í landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tim Cahill fagnar einu marka sinna.
Tim Cahill fagnar einu marka sinna. Vísir/Getty
Tim Cahill, fyrrum leikmaður Everton í ensku úrvalsdeildinni, var heldur betur á skotskónum í undankeppni HM 2018 í dag.Tim Cahill skoraði þá þrennu í 4-0 sigri Ástrala á Bangladess en leikurinn fór fram í Dakka í Bangladess. Fjórða markið skoraði fyrirliðinn og leikmaður Crystal Palace, Mile Jedinak.Öll mörk Tim Cahill komu á fyrstu 37 mínútum leiksins en hann skoraði á 6., 32. og 37. mínútu leiksins. Staðan var orðin 4-0 í hálfleik og það urðu líka lokatölurnar.Tim Cahill er orðinn 35 ára gamall en hefur verið í landsliðinu frá 2004. Þetta var einmitt fyrsta þrenna hans með landsliðinu í meira en ellefu ár.Tim Cahill skoraði einnig þrennu fyrir Ástrala í sigri á Fiji-eyjum árið 2004. Hann hafði frá þeim tíma skorað átta tvennur fyrir landsliðið. Cahill hefur skorað alls 45 mörk í 88 leikjum með Ástölum þar af 16 mörk í 26 leikjum undanfarin tvö ár. Hann er markahæsti leikmaður ástralska landsliðsins frá upphafi.Tim Cahill lék í ensku úrvalsdeildinni með Everton frá 2004 til 2012 en sex ár á undan var hann leikmaður Millwall.Cahill spilaði síðan með New York Red Bulls í Bandaríkjunum frá 2012 til 2014 en er nú leikmaður kínverska liðsins Shanghai Shenhua.Tim Cahill minnti vel á sig á HM í Brasilíu þar sem hann skorað tvö mörk fyrir ástralska landsliðið og markið hans á móti Hollandi þykir eitt það besta sem hefur verið skorað á HM. Tim Cahill hefur skorað á síðustu þremur heimsmeistaramótum, 2006, 2010 og 2014, samtals fimm mörk.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.