Þetta er mat Gunnars Inga Jóhannssonar hæstaréttarlögmanns á viðbrögðunum við forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur til rannsóknar kynferðisbrotamál þar sem tveir menn liggja undir grun. Ekki var krafist gæsluvarðhalds yfir mönnunum og talið er að þeir séu báðir farnir úr landi.
Fjöldi nafnbirtinga á Facebook
Hundruð Íslendinga hafa í dag deilt færslum á Twitter og Facebook þar sem mennirnir tveir sem grunaðir eru um að hafa nauðgað tveimur stúlkum eru nafngreindir. Þá gengur færsla sem eldur í sinu um Facebook þar sem einnig er að finna myndir af mönnunum og þeir sagðir nauðgarar.
„Dómstólar hafa ítrekað lagt það til grundvallar sínum úrlausnum að ef að menn færa fram ásakanir um refsiverða háttsemi og ekki hefur verið sýnt fram á þær séu sannar þá er í mjög mörgum tilfellum um ærumeiðingu að ræða,“ segir Gunnar sem hefur víðtæka reynslu af málaflokknum.
Sjá einnig: Málshöfðunin tilraun til þöggunar

„Langt gengið“ að kalla þá nauðgara
Nafn- og myndbirtingar dagsins séu þannig skýrt brot á þeirri meginreglu að menn teljast saklausir uns sekt þeirra er sönnuð fyrir dómi. Því sé á þessu stigi málsins „langt gengið“ að ganga út frá sekt mannana og kalla þá nauðgara að mati Gunnars.
Sjá einnig: Annar grunuðu farinn úr landi?
„Það er eiginlega alveg öruggt mál að ef rannsókn þessa máls er felld niður eða þeir sýknaðir fyrir dómi þá getur maður ímyndað sér að þeir fari í meiðyrðamál við þá sem hafa kallað þá nauðgara. Og það er nokkuð ljóst hvernig þau mál myndu fara,“ segir Gunnar.
Hann telur þó í hæsta máti óeðlilegt ef mennirnir tveir sem hafa verið nafngreindir láti reyna á slíkar málshöfðanir áður en sýkna eða niðurfelling á málum þeirra liggur fyrir.
TIL VARÚÐAR fyrir FB vini mína: Einstaklingur sem sakar aðra um refsiverða háttsemi án þess að sú sekt sé sannanleg...
Posted by Guðný Hjaltadóttir on Monday, 9 November 2015