Innlent

Málshöfðunin tilraun til þöggunar

Hrund Þórsdóttir skrifar
Gunnar Ingi Jóhannsson, héraðsdómslögmaður, segir svipaða atburðarás farna af stað eins og fyrir nokkrum árum, en þá hafi eigendur sambærilegra staða höfðað mál vegna svipaðra ummæla.
Gunnar Ingi Jóhannsson, héraðsdómslögmaður, segir svipaða atburðarás farna af stað eins og fyrir nokkrum árum, en þá hafi eigendur sambærilegra staða höfðað mál vegna svipaðra ummæla. samsett mynd
Nú fyrir helgina stefndu eigendur kampavínsstaðanna VIP Club og Crystal borgarfulltrúanum Björk Vilhelmsdóttur og Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur, forstöðukonu vændisathvarfsins, fyrir ummæli þeirra um að svo virtist sem vændi og mansal væri stundað í tengslum við staðina.

Þær hafa frest til morguns til að biðjast afsökunar á ummælunum og greiða miskabætur, ella verður höfðað meiðyrðamál gegn þeim.

Gunnar Ingi Jóhannsson, héraðsdómslögmaður, segir svipaða atburðarás farna af stað eins og fyrir nokkrum árum, en þá hafi eigendur sambærilegra staða höfðað mál vegna svipaðra ummæla.

Lögmaður VIP Club og Crystal hefur bent á að ummæli í þeim málum hafi verið dæmd dauð og ómerk en málin tvö sem um ræðir, sem snertu starfsemi staðarins Goldfinger, fóru fyrir Mannréttindadómstólinn og unnust þar.

„Íslenskir dómstólar hafa fjallað um sambærileg mál og mörk tjáningarfrelsis varðandi starfsemi sambærilegra staða en það hefur Mannréttindadómstóllinn líka gert og komist að þeirri niðustöðu að niðurstaða íslenskra dómstóla hafi brotið gegn grundvallarmannréttindum með því að takmarka um of tjáningarfrelsi,“ segir Gunnar, og bætir því við að ef íslenskir dómstólar ætli sér að taka mark á niðurstöðum Mannréttindadómstólsins ættu konurnar tvær sem stefnt er nú ekki að þurfa að hafa áhyggjur af málsóknum.

„Þeir sem reka starfsemi sem þessa eru að útsetja sig fyrir umræðu og verða að þola umræðu um þessa staði alveg sama þó að hún sé óvægin.“

Gunnar segir umræðu um staði sem þessa í gangi í öllum löndum Evrópu. Hún eigi fullt erindi við almenning og margir hafi skoðun á því hvort starfsemin eigi að líðast í samfélaginu.

„Þetta er mál sem á fullt og brýnt erindi við almenning og nauðsynlegt að það sé fjallað um það frá öllum hliðum og óhindrað og það verða þeir sem stunda þessa starfsemi að þola.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.