Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn fær og eyðir mest

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Ríkisendurskoðun hefur birt upplýsingar um fjármál stjórnmálaflokka á síðasta ári.
Ríkisendurskoðun hefur birt upplýsingar um fjármál stjórnmálaflokka á síðasta ári. vísir/ernir
Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn á þingi sem skilaði tapi á síðasta ári. Þetta kemur fram í nýbirtum útdrætti úr ársreikningi stjórnmálaflokkanna sem birtir voru í dag á vef Ríkisendurskoðunar. Flokkurinn tapaði 36,7 milljónum króna á meðan hinir flokkarnir á þingi skiluðu allir afgangi.



Mestum  afgangi  skiluðu Vinstri grænir, eða samtals 18,4 milljónum króna. Það er mikill viðsnúningur frá árinu 2013 þegar flokkurinn skilaði tapi upp á 42,7 milljónum. Vert er að nefna að þingkosningar fóru fram það ár en útgjöld flokka eru jafnan mun meiri þá en venjulega.



Samfylkingin skilaði 2,6 milljóna króna afgangi, Píratar 9,99 milljónum og Framsóknarflokkurinn 7,3 milljónum.

Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuð og herðar yfir aðra þegar kemur að kostnaði og tekjum. Flokkurinn fékk 39,6 milljónir í framlög frá einstaklingum og 28,9 milljónir frá lögaðilum. Samfylkingin var með svipaðar tekjur af framlögum einstaklinga, 27,4 milljónir, en aðeins 8,4 milljónir frá lögaðilum.



Rekstur Sjálfstæðisflokksins er líka umtalsvert kostnaðarsamari en rekstur hinna flokkanna. Samtals fóru 268 milljónir króna í rekstur flokksins og fasteigna, sem er þó rúmum 75 milljónum minna en árið 2013. Til samanburðar kostaði rekstur Pírata aðeins um 11,5 milljónir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×