Fótbolti

Þjóðverjar komust inn á 24. stórmótið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Max Kruse fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Max Kruse fagnar sigurmarki sínu í kvöld. Vísir/Getty
Heimsmeistarar Þjóðverjar tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins í Frakklandi næsta sumar eftir 2-1 sigur á Georgíu í lokaleik sínum í undankeppninni.

Þjóðverjar náðu í 22 stig í 10 leikjum og unnu D-riðilinn en Pólverjar fengu stigi minni og fylgja þeim þýsku í úrslitakeppnina.

Max Kruse tryggði þýska liðinu sigurinn á Georgíu með marki ellefu mínútum fyrir leikslok en það kom eftir stoðsendingu frá Arsenal-manninum Mesut Özil. Thomas Müller hafði áður komið Þjóðverjum í 1-0 á 50. mínútu en Jaba Kankava jafnaði fyrir Georgíu aðeins þremur mínútum síðan.

Þjóðverjar voru fimmtánda þjóðin til að tryggja sér sætið á Evrópumótinu en þeir voru meðal annars 35 dögum á eftir íslenska liðinu að næla sér í farseðilinn til Frakklands.

Þjóðverjar eru þar með inni á 24. stórmótinu í röð í fótboltanum en þeir hafa verið með á öllum stórmótum heimsfótboltans síðan á Evrópumótinu 1968.

Júgóslavar skyldu Vestur-Þjóðverja eftir í riðli þeirra í undankeppni EM 1968 eftir að þýska liðið gerði óvænt markalaust jafntefli við Albaníu í lokaleiknum sínum.

Það var mjög óvænt enda var vestur-þýska liðið í úrslitaleiknum á HM 1966 og átti síðan eftir að komast í undanúrslit á HM 1970 og vinna Evrópumeistaratitilinn 1972 og heimsmeistaratitilinn 1974.

Frá og með heimsmeistaramótinu í Mexíkó 1970 hafa Þjóðverjar síðan verið með á öllum stórmótum á 47 árum, tólf Evrópumótum og tólf heimsmeistaramótum.

Það sem meira er að þýska liðið hefur unnið verðlaun á síðustu fimm stórmótum sínum eða öllum mótum síðan að þeir tóku brons á heimavelli á Hm 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×